Grein dagsins skrifar Gunnar Hólmsteinn, stjórnmálafræðingur. Í greininni fjallar hann um krónuna, og fyrir hverja hún sé í raun og veru. Hér að neðan má lesa greinina í heild sinni.

Fyrir hverja er Krónan? Þessi spurning hefur leitað á mig undanfarið, enda kannski ekki nema von – umræða um gjaldmiðilsmál hefur verið mikil. Menn hafa verið að ræða ýmislegt; íslenska krónu, norska krónu, færeyska krónu, Evru, Kanadadollar, Dollar, einhliða upptöku, tvíhliða upptöku, fjölmyntakerfi, fastgengisstefnu og nú síðast Nýkrónu-hugmynd Lilju Mósesdóttir. Kannski ekki nema von að fólk sé létt-ruglað í þessu öllu saman.

Sumir möguleikar eru hreinlega engir möguleikar og hægt að útiloka strax. Norska ríkisstjórninr er t.d. ekkert á þeim buxunum að leyfa okkur að taka upp norsku krónuna. Það kom berlega ljós hjá norskum ráðamönnum fyrir nokkrum misserum. Upphlaupið með Kanadadollar virðist einnig óraunsætt, þó það sé tæknilega framkvæmanlegt. Því myndi einnig fylgja algert afsal á fullveldi Íslands í gjaldmiðilsmálum. Nokkuð sérkennilegt að Framsóknarflokkurinn (les: formaðurinn) skuli vera í þessum hugleiðingum. En á sama tíma felst í þessu viðurkenning á miklum veikleikum krónunnar. Þá má einnig benda á að Samtök ungra sjálfstæðismanna (SUS) telja að krónan sé ekki lengur nothæf.

HIN MÖRGU ANDLIT KRÓNUNNAR

Í umræðunni um krónuna koma einnig fyrir hugtök sem eru kannski ekki svo auðskilin, vegna þess að þetta er ekki einfalt mál: Haftakróna, aflandskróna, vertryggð króna og óverðtryggð króna. Gjaldmiðill Íslands hefur mörg andlit!

Haftakrónan er jú orð yfir þá staðreynd að gjaldmiðill Íslands er í viðskiptahöftum og ekki skráður í erlendum viðskiptum víða erlendis. Með aflandskrónu er átt við …,, verðmæti í innlendum gjaldeyri (krónum) í eigu eða vörslu útlendinga í flestum tilvikum, eða ávísun á slík verðmæti, sem lúta sérstökum takmörkunum vegna hafta á fjármagnshreyfingar sem komið var á eftir hrun íslenska bankakerfisins haustið 2008,“ eins og segir á Vísindavef Háskóla Íslands.

Verðtryggða krónan er svo krónan sem hleður ofan á höfuðstólinn hjá þeim sem eru með vertryggð lán (en laun í óverðtryggðum krónum).  Það er t.d. nóg að Íranir ákveði að hreyfa sig lítillega  á Hormussundi við Arabíu-skagann, þá hækkar bensínverðið, sem fer inn í neysluvísitöluna, sem er hluti af vertryggingunni og hækkar því verðtryggð lán á Íslandi!

VERÐTRYGGING = EIGNAUPPTAKA?

Ætli menn hafi hugsað fyrir þessum ,,aukaverkunum“ á verðtryggingunni, þegar Ólafslögin (sem fólu í sér verðtrygginu) voru sett árið 1979? Áhættan af verðtryggðum lánum er algerlega lántakenda, en ekki lánveitenda. Ég vill meina að verðtrygging sé í raun ekkert annað en eignaupptaka fram í tímann og skerði því eignarrétt og eignastöðu þeirra sem taka þannig lán. Og sé því í raun einskonar efnahagslegt mannréttindabrot. Það sér hver viti borinn maður að það er ekki heil brú í þessu kerfi!

GENGISFELLINGU, TAKK!

Önnur hlið á krónunni er það sem ég vill kalla ,,sjálfstæði til misþyrmingar,“ á krónunni, gjaldmiðlinum.  Ef krónan væri heimilsdýr væri búið að kæra eigandann fyrir illa meðferð og sennilega taka af honum forræðið! Verðmæti krónunnar hefur minnkað um 99.5% frá 1920-2009. Það var jú líka einu sinni þannig að útgerðin gat nánast pantað gengisfellingu (misþyrmingu) á krónunni, til þess að laga efnhagsreikning útgerðarfyrirtækja. Ákveðnir menn komu í fjölmiðla, báru sig illa og síðan var gengið fellt! Almenningur þurfti síðan að taka skellinn í formin kaupmáttarskerðingar. Einnig var algengt að strax eftir nýja kjarasamninga, þá var gengið fellt. Á bóluárunum, (eftir árið 2000) kvartaði útgerðin yfir of háu gengi, en ódýr erlendur innflutningur flæddi þá yfir landið. Eftir hrun kvartar útgerðin ekki, enda hrundi krónan, sem þýðir jú fleiri krónur í kassann.

ÖLDUDALURINN

Og aftur þarf almenningur að borga brúsann í formi kaupmáttarskerðingar og hækkunar á vöruverði. Um er að ræða gríðarlegar sveiflur, nokkuð sem einkennir íslensk efnhagsmál og er bæði heimilum og fyrirtækjum til mikilla trafala, verulega erfitt er að hugsa nokkur misseri fram í tímann. Er þetta ,,formið“ sem menn vilja hafa í framtíðinni; ,,niður í öldudal-upp úr öldudal?‘‘

Í sambandið við evruna heyrist hátt að henni fylgi hátt atvinnuleysi. Engar rannsóknir benda hinsvegar til að svo sé. Hinsvegar skipta reglur á vinnumarkaði hvers Evru-ríkis fyrir sig máli. Spánn er ágætt dæmi, en þar er atvinnuleysi mikið. Þar eru reglur á vinnumarkaði hinsvegar mjög stífar og vinnumarkaður ósvegjanlegur. Þar hefur átvinnuleysi verið landlægt í áratugi og mikið bundið við árstíðasveiflur í ferðamannaiðnaði.

Sama mætti segja um Svíþjóð, sem ekki er með evruna, en hagar sinni hagstjórn eins og um Evru-ríki væri að ræða. Þar er atvinnuleysi meðal ungs fólks hátt, enda ósveigjanleiki mikill á sænskum vinnumarkaði. Það er sænska ríkisstjórnin sem setur almennar reglur á sænskum vinnumarkaði.

GJALDMIÐILL Á GJÖRGÆSLU

Ísland er hinsvegar með mjög sveigjanlegan vinnumarkað og hann er lítill. Það er því ekkert sem bendir til þess að evran muni fela í sér aukið atvinnuleysi. Það ber að hafa í huga að hið mikla atvinnuleysi sem hér skapaðist eftir hrun, skapaðist einmitt vegna þess – hruns á bankakerfi landsins og gjaldmiðilsins. Þetta eru þær ,,rústir“ sem menn eru að vinna sig upp úr, en af hverju er krónan ekki búin að rétta þetta af nú þegar?

Getur ein skýringin verið dræm erlend fjárfesting vegna gjaldmiðils í höftum? Vilja nútíma fjárfestar fjárfesta í landi sem er með gjaldmiðil á gjörgæslu?

Með upptöku evru skapast geta skapast skilyrði til langvarandi lækkunnar vaxta og verðbólgu. Rannsóknir sýna einnig að við upptöku evru aukast erlend viðskipti upptökulandsins um 5-15%. Þetta myndi þýða tugi milljarða aukningu á útflutningsverðmæti fyrir landið, í viðbót við þá kostnaðarminnkun sem myndi fylgja lægri vöxtum og lægri verðbólgu.

Að lokum má svo nefna þá staðreynd að um 70-80% af útflutningi Íslands fer til Evru-svæðisins og ESB-ríkjanna. Skiptir það ekki máli í þessu samhengi?

Peningar eru ávísun á verðmæti. Fyrir almenning hlýtur það að skipta lykilmáli að vera með gjaldmiðil sem er raunveruleg ávísun á verðmæti, en er ekki gerður sífellt verðminni eftir því sem tíminn líður. Eða er það raunverulegt sjálfstæði?