hannesHannes Pétursson, rithöfundur, skrifar áhugaverða grein í Fréttablaðið, um pólitískan áróður, tvöfeldni og hræsni, og þá miðla sem leggja sig hvað harðast fram við að teikna upp hina verstu mynd af Evrópusambandinu.

Í greininni segir Hannes meðal annars:

„Það er annars forkostulegur miðill, Evrópuvaktin. Í hvert skipti sem ég glugga í hann finnst mér sem ég stígi niður í hélugráa jarðholu frá dögum kalda stríðsins. Þar fer mikið fyrir áróðurspistlum ritstjóranna, þeirra góðu drengja, um stjórnmál upp og ofan ásamt sérvöldu musli úr erlendum blöðum og fréttum sem allt á að sanna að innan Evrópusambandsins sjáist ekki stingandi strá, þar sé „gap Ginnunga,/ en gras hvergi“, nefnt „svarthol“ (Styrmir, 28.1. sl.). Af þessu leiðir að ekkert vit er í öðru en að slíta nú þegar aðildarviðræðum íslenzkra stjórnvalda og þeirra þarna í Brussel, en halda þess í stað fast við fullveldisverðbólguna og fullveldisarðránið sem fylgir elsku litlu krónunni okkar. Og er þá fátt talið af kostum viðræðuslita. Uppi í Hádegismóum er svo önnur og stærri jarðhola. Þar niðri situr maður sömuleiðis á Evrópuvakt og skrifar og skrifar undir grýlukertunum.“

Hannes heldur áfram:

„Svona er tvöfeldnin, svona er hræsnin. Þær bakteríur lifa góðu lífi í pólitískum áróðri. Skínandi vitnisburð þess má finna í búnaðarmálaþrasinu íslenzka. Þar aka menn seglum eftir vindi; til dæmis er hrátt, innlent kjöt ævinlega kallað ferskt, en ferskt, erlent kjöt ævinlega hrátt. Þetta kristallaðist enn einu sinni nú á dögunum í sjónvarpsviðtali við nýkjörinn formann bændasamtakanna. Hann var spurður um innflutning á nýju kjöti í þágu neytenda. Það kjöt var hrátt í svörum hans þangað til snögglega að annað hrátt kjöt varð ferskt. Þetta umturnaðist á augabragði af þeirri ástæðu að formaðurinn nefndi útflutning lambakjöts héðan. Það getur maður manni sagt að slíkt kjöt var ekki hrátt, heldur svona í meira lagi ferskt.“

Greinina hans Hannesar er hægt að lesa í heidl sinni á Vísi.is.