iceland-crowdJá Ísland fordæmir þá fádæma vanvirðingu sem ríkisstjórn Íslands sýnir þingi og þjóð með framgöngu sinni í Evrópumálum síðustu daga.

Fyrir síðust kosningar voru gefin skýr og afdráttarlaus loforð um aðkomu þjóðarinnar að málinu. Þau loforð hafa verið svikin.

Ríkisstjórnin gerði tilraun til þess að slíta umsóknarferli Íslands með þingsályktunartillögu fyrir ári síðan. Ekki tókst að koma þeirri tillögu í gegnum þingið og 53.555 Íslendingar kröfðust þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald málsins. Það eru rúm 20% kosningabærra Íslendinga.

Í stað þess að verða við kröfunni um þjóðaratkvæði og standa við eigin loforð var að nýju boðuð þingsályktunartillaga sem yrði lögð fyrir þing á þessum vetri. Það fullyrtu forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra. Á þeim var enginn bilbugur.

Nú hefur komið í ljós að þessar yfirlýsingar voru fals eitt. Í stað þess að standa við þær var ákveðið að afhenda bréf. Bréf sem enginn vissi um nema ríkisstjórnin ein. Með þessu voru þingið og þjóðin blekkt með ósvífnum hætti. Ríkisstjórnin gerir með þessu tilraun til þess að fara á svig við eðlilegar leikreglur siðaðs samfélags – sem betur fer er tilraunin klámhögg sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar, forseti Alþingis og formaður utanríkismála­nefndar hafa hver sinn skilning á og Evrópusambandið skilur alls ekki.

Til þess að mótmæla þessu gerræði á kostnað lýðræðisins hvetur Já Ísland alla til þess koma saman á Austurvelli sunnudaginn 15. mars kl. 14.