Fimmtudaginn 27. október fjallaði Gísli Hjálmtýsson, fjárfestir og fyrrverandi deildarstjóri tölvunarfræðideildar hjá Háskólanum í Reykjavík, um tækifærin sem felast í aðild Íslands að Evrópusambandinu, á opnum fundi hjá Já Ísland. Á fundinum komu margir áhugaverðir punktar fram.

Gísli fjallaði um framtíðarsýn Íslands og nefndi meðal annars að velferðarsamfélagið okkar byggir á sterkum efnahag og á næstu tíu árum þurfum við að búa til 30.000 ný störf, en 50% af þeim verða fyrir háskólamenntað fólk, en sá hópur stækkar hér á landi ört. Verði þetta ekki að veruleika mun mikill fólksflutningur eiga sér stað, en hann verður að stöðva. Í dag bíður unga fólksins lítil og fábreytt atvinnutækifæri, lágt kaup, háir skattar, gjaldeyrishöft og léleg lánskjör.

Þá kom einnig fram að Ísland hefur síðustu áratugi dregist verulega aftur úr bæði Evrópusambandinu og Bandaríkjunum þegar kemur að landsframleiðslu á mann, en það er nauðsynlegt fyrir Ísland að halda í við hina, jafna samkeppnisstöðuna og breyta atvinnulífinu. Við þurfum að „komast frá hrávöruhagkerfi yfir í fjölbreyttan útflutningsiðnað byggðan á þekkingu og sérhæfingu“, en í dag eru mjög fá íslensk fyrirtæki í útflutningi. Þá nefndi Gísli það að það er íslenska krónan sem er stærsta viðskiptahindrunin, en hann talaði um „ruðningsáhrif krónunnar“ sem fela í sér þau áhrif sem krónan hefur, en hún stöðvar erlenda fjárfestingu og gerir útaf við litlu útflutningsfyrirtækin.

Að lokum nefndi Gísli að þegar allt kemur til alls þá snýst þetta allt um fólk. Vægi sjávarútvegs og landbúnaðar fer minnkandi, hlutfall menntafólks fer hækkandi, hlutfall sérmenntaðs fólks hækkar, verslun og þjónusta fer vaxandi, en þetta skilgreinir framtíðarhagsmuni Íslands og gagnvart Evrópusambandinu. Ef þetta fólk fær ekkert að gera á Íslandi, þá fer það eitthvert annað. Stóra auðlindin okkar er því fólkið okkar, harða samkeppnin er að halda unga fólkinu í landinu.

Ísland í ESB: hvert er tækifærið? Við þurfum að jafna samkeppnisstöðu Íslands gagnvart öðrum Evrópulöndum, fá nothæfan gjaldmiðil, byggja upp atvinnulíf framtíðarinnar, sem byggist á þekkingu og menntun og útflutningi og stöðva þar með fólksflótta unga fólksins.