bgsBjörgvin G. Sigurðsson, Alþingismaður, skrifar grein í Morgunblaðið í dag, mánudaginn 18. febrúar, um ESB og íslenska hestinn, og bregst þar við grein Guðna Ágústssonar, fyrrverandi ráðherra, og þeirri umræðu sem hefur verið að skapast í kringum viðfangsefnið. Greinina má lesa í heild sinni hér að neðan.

Í Morgunblaðinu 9. febrúar leggur sveitungi minn Guðni Ágústsson fyrrverandi ráðherra út af viðtali við Íslandsvininn og hestakonuna Karola Schmeil í Eiðfaxa, en Karola telur útséð um að hægt verði að semja um bann við innflutningi á lifandi dýrum til Íslands. Þetta grípur Guðni á lofti og skorar á utanríkisráðherra og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að gefa skýr svör um málið og hvernig haldið er á því í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Ég ætla að taka ómakið af ráðherrunum.

Samið um bann við innflutningi lifandi dýra

Ég er sammála Guðna og Karolu um það að íslenski hesturinn er einstakt menningarfyrirbæri, samofið sögu lands og þjóðar. Guðni vísar til góðrar sjúkdómsstöðu, ekki einungis hestsins – heldur einnig annarra innlendra búfjárstofna. Guðni bendir réttilega á hætturnar sem því myndu fylgja að lifandi dýr yrðu flutt til landsins. Það er sannfæring mín, rétt eins og Guðna, að semja verður um bann við innflutningi lifandi dýra í aðildarviðræðunum.

Í áliti meirihluta utanríkismálanefndar frá 16. júlí 2009, sem fylgdi þingsályktun Alþingis um aðildarumsóknina, kemur skýrt fram að viðhalda beri þeim undanþágum og sérlausnum sem Ísland hefur í dag á grundvelli EES-samningsins. Sérstaklega er fjallað um lifandi dýr í því samhengi. Stjórnvöld hafa sýnt í verki hvernig þau fylgja í hvívetna þeim vegvísi sem meirihluti utanríkismálanefndar setti fram og Alþingi veitti umboð sitt til að starfa eftir.

Viðræður í þeim kafla aðildarviðræðnanna sem snýr að dýraheilbrigði eru ekki hafnar. Ísland hefur hins vegar lokið við að móta samningsafstöðu sína sem hefur verið send Evrópusambandinu og birt á heimasíðu viðræðunefndarinnar.

Í samningsafstöðunni er með skýrum hætti farið fram á að banni við innflutningi lifandi dýra verði viðhaldið á grundvelli þess hversu fáir sjúkdómar finnast í búfé á Íslandi og þess hve viðkvæmir íslenskir búfjárstofnar eru gagnvart sjúkdómum. Á þessum rökstuðningi var m.a. skerpt eftir umfjöllun í utanríkismálanefnd Alþingis. Ekki verður annað séð af samningsafstöðunni um kaflann um dýraheilbrigði en að stjórnvöld fylgi þeim vegvísi sem meirihluti utanríkismálanefndar setti fram og Alþingi veitti umboð sitt til að starfa eftir.

Í samningsafstöðu Íslands er raunar einnig farið fram á áframhaldandi bann við innflutningi á hráu kjöti og eggjum – enda þótt það atriði sé ekki sérstaklega nefnt í áliti meirihluta utanríkismálanefndar.

Evrópusambandið mótar nú samningsafstöðu sína og í kjölfarið hefjast samningaviðræður um þessa kröfu Íslands. Hví ætti Evrópusambandið ekki að bregðast við henni með jákvæðum hætti?

Guðni semur við sjálfan sig

Guðni einblínir á fjórfrelsið sem helgibókstaf. Hins vegar er skýrt að heimilt er að skerða fjórfrelsið m.a. til verndar heilsu dýra og manna og vegna annarra lögmætra sjónarmiða. Þar er málstaður Íslands góður og víðsfjarri markmiðum Evrópusambandsins að útrýma íslensku kúnni, sauðkindinni eða íslenska hestinum – en sambandið ber m.a. ríkar skyldur þegar kemur að líffræðilegum fjölbreytileika og að vernda dýraheilbrigði. Engin ástæða er til að ætla annað en að vísindalegt áhættumat, svo sem það sem stjórnvöld láta nú vinna, muni styðja við kröfu Íslands.

Mér er til efs að hinn grandvari fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar sem Guðni vísar til í grein sinni hefði svarað jafn afdráttarlaust hefði hann þekkt betur til aðstæðna hér. Þá hefur margoft sýnt sig í verki að það er hægt að semja um sérlausnir í aðildarsamningum byggðar á sérstöðu umsóknarríkisins. Um það talar m.a. aðildarsamningur Finnlands sínu máli hvað varðar stuðning við norðlægan landbúnað – þrátt fyrir tilraunir andstæðinga aðildarviðræðnanna hér til að semja við sjálfa sig um hið gagnstæða.

Við Guðni erum sammála um nauðsyn þess að varðveita dýrmæta sóttvarnarstöðu Íslands. Algjör samstaða er um áframhaldandi bann við innflutningi lifandi dýra þvert á flokka og þvert á skoðanir um aðild að ESB. Krafa Íslands þar um liggur fyrir. Guðni ætti því bíða samningsniðurstöðunnar eins og við hin, fremur en að semja við sjálfan sig á síðum Morgunblaðsins.

Mestu skiptir að samningsgerðinni ljúki með ýtrustu hagsmuni Íslands að leiðarljósi. Óhemjumiklir hagsmunir lands og þjóðar til langrar framtíðar eru undir. Meðal annars gengisstöðugleiki, lágir vextir og afnám verðtryggingar. Ruglum ekki þá umræðu með útúrsnúningum heldur klárum verkið og leyfum þjóðinni að greiða atkvæði um fullgerðan samning sem allra fyrst