Grein eftir Elvar Örn Arason sem birtist í Morgunblaðinu þann 10. september 2011.

Á undanförnum áratugum hefur svæðisbundið samstarf ríkja farið ört vaxandi um víða veröld. Í flestum tilfellum eru það nágrannaþjóðir með náin menningarleg, söguleg og viðskiptaleg tengsl sem koma á fót svæðisbundnu samstarfi. Fyrir utan Evrópusambandið eru NAFTA í Norður-Ameríku, ASEAN í Suðaustur-Asíu og Mercosur í Suður-Ameríku þekktustu dæmin um ríkjasamstarf.

Helsta skýringin á þessari þróun er hnattvæðing, sem hefur haft í för með sér aukin viðskiptatengsl og samskipti á milli samfélaga og hagkerfa heimsins. Oft er talað um að heimurinn sé að minnka, þar sem atburðir í fjarlægum löndum geta haft víðtæk áhrif hinum megin á hnettinum. Ein frétt sem berst á örskotsstund heiminn á enda getur haft áhrif á ímynd og orðstír Íslands. Önnur skýring á þessari þróun er svokölluð dómínóáhrif, sem lýsa sér þannig að þegar nokkur ríki taka sig saman og hefja samstarf með það að leiðarljósi að styrkja efnahagslega stöðu sína eru önnur ríki knúin til að gera slíkt hið sama. Marghliða viðskiptaviðræður á vettvangi alþjóðlegra stofnanna á borð við Alþjóðaviðskiptastofnunina hafa enn frekar ýtt undir þessa þróun. Enn aðrir telja að hnattvæðingin hafi getið af sér nýtt alþjóðakerfi, þar sem fjölmargir aðrir gerendur en þjóðríkin hafi komið fram á sjónarsviðið. Því má líta á svæðisbundið samstarf ríkja sem viðbrögð við flóknu samspili sem á sér stað milli þjóðríkja, alþjóðastofnana, félagasamtaka og fjölþjóðafyrirtækja.

ESB hefur gengið lengra í stjórnmálalegri og efnahagslegri samvinnu en áður hefur þekkst. Þessa þróun verður einnig að skoða í samhengi við þær breytingar sem átt hafa sér stað á umliðnum árum með auknu flæði hugmynda, fólks, vöru og fjármagns. Afleiðingar hnattvæðingarinnar eru ekki að öllu leyti jákvæðar. Nýjar ógnir eins og loftlagsbreytingar, smitsóttir og alþjóðleg glæpastarfsemi þekkja engin landamæri og alþjóðleg samvinna er eina leið ríkisstjórna til að vinna bug á þeim. Alþjóðlega fjármálakreppan er nýlegt dæmi um hversu berskjölduð ríki eru gagnvart frjálsu flæði fjármagns milli landamæra.

Í hnattvæddum heimi eru alþjóðamál heimamál og öfugt. Ríkin þurfa að taka virkan þátt í alþjóðasamstarfi til að ná árangri innanlands. Með inngöngu í ESB afsala ríkin sér hluta af fullveldi sínu til yfirþjóðlegra stofnana sambandsins en á móti fá þau aukna hlutdeild og vægi á alþjóðavettvangi. Í mörgum tilfellum veitir alþjóðleg samvinna smáríkjum efnahagslegt og pólitískt skjól fyrir neikvæðum áhrifum hnattvæðingarinnar og hlutfallslegur ávinningur þeirra af svæðisbundnu samstarfi er oftast nær talsvert meiri en stærri ríkja.

Ísland hefur tekið virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi af ýmsu tagi, fyrst á vettvangi Norðurlandaráðs og EFTA, og með EES-samningnum gerðist Ísland aukaaðild að ESB. Þróun alþjóðakerfisins tekur örum breytingum og því þarf sífellt að endurmeta hagsmuni, ógnir og tækifæri. Eftir að Danmörk, Finnland og Svíþjóð gerðust aðilar að ESB hefur samstarf Norðurlandanna beinst í ríkari mæli að Evrópusamstarfinu. Ísland ætti að skipa sér í sveit með þeim og leggja sitt af mörkum við að gæta sameiginlegra hagsmuna smáríkja á norðlægum slóðum. Ísland hefur langtum fleiri tækifæri til að vinna hagsmunum sínum brautargengi með virkri alþjóðlegri samvinnu.