Í dag, föstudaginn 1. júní 2012, birtist grein í Morgunblaðinu eftir Jón Steindór Valdimarsson, formann félagsins Sterkara Ísland, um íslensku krónuna, afleiðingar hennar og kostnaðinn fyrir heimilin af krónunni og samanburð við evruríkin. Hér að neðan má lesa greinina í heild sinni.

Fyrir margt löngu eyddi ég sumarleyfi með fleira fólki á ferðalagi um meginland Evrópu. Ferðin var undirbúin eins og venjan býður. Erfiðast var að tryggja farareyri. Ekki vegna þess að íslenskt skotsilfur vantaði heldur vegna þess að gjaldeyrishöft og gjaldeyrisskömmtun gerðu nánast ómögulegt að ráðast í ferðina. Eina ráðið á þeim tíma var að kaupa gjaldeyri á svörtum markaði. Þar seldu þeir sem voru svo heppnir að komast yfir gjaldeyri vegna samskipta við ferðamenn, viðskipta eða með öðrum hætti sem ég kæri mig ekki um að vita.

Krónan enn og aftur í höftum

Þetta var árið 1980. Enn hefur reynst nauðsynlegt að grípa til sömu ráðstafana. Enn er krónan okkar of viðkvæm til þess að geta lotið eðlilegum viðskiptalögmálum. Sem fyrr vill enginn taka við henni utan landsteinanna. Allar götur frá því að Ísland varð sjálfstætt og fullvalda árið 1944 hefur efnahagssaga okkar einkennst af miklum sveiflum, uppgangstíma og kreppu á víxl, verðbólgu, verðsveiflum og loks gengissveiflum.

Heimilin þola ekki meira

Í mínum huga er augljóst að verkefni okkar er að búa heimilum og fyrirtækjum efnahagslegan stöðugleika. Það verður að skapa umhverfi sem er heilbrigður grundvöllur fyrir þróttmikið atvinnulíf og gerir heimilishald ekki að hættuspili. Mikill fjármagnskostnaður, verðtrygging og stökkbreytingar skulda eru að sliga marga, ekki síst ungt fólk. Lífskjör þess eru í þessum efnum allt önnur og verri en þekkist í nágrannalöndum okkar.

Samanburður við evruland

Á liðnum árum hefur ýmislegt drifið á daga okkar Íslendinga í efnahagslegu tilliti. Hið sama er uppi á teningnum víða annars staðar í heiminum. Það á við um evruríkin (evruland) innan Evrópusambandsins. Það er fróðlegt að skoða aðeins hver þróun verðlags hefur verið hjá okkur með krónuna frá árinu 2008 og hjá þeim með evruna til og með febrúar á þessu ári. Stuðst er við upplýsingar sem Hagstofa Íslands hefur tekið saman.

Herkostnaður íslenskra heimila

Samræmdar mælingar eru gerðar í evrulandi og á Íslandi. Niðurstöður eru sláandi.Hækkun á vöru og þjónustu í evrulandi er 5,8% en hvorki meira né minna en 34,9% á Íslandi. Matarkarfan er á svipuðu róli, hækkar hér um 32% en 5,2% að meðaltali í evrulandi. Kostnaður vegna húsnæðis, rafmagns, hita o.s.frv. hækkaði um 10,1% í evrulandi en hvorki meira né minna en um 44,7% á Íslandi. Þessi munur er hrikalegur. Ekki verður deilt um að krónan á hér ríkan þátt. Hagræði af því að hafa krónu á öðrum sviðum þarf að vera ansi mikið ef það á að réttlæta þennan herkostnað heimilanna. Lífskjör almennings líða fyrir krónuna, á því leikur ekki minnsti vafi.

Dýrt spaug að kaupa íbúð

Allir þurfa samastað. Flestir reyna að eignast eigið húsnæði en aðrir kjósa að leigja. Kostnaður við fjármögnun skiptir í báðum tilvikum miklu máli. Það er afar forvitnilegt að skoða hvað það kostar að taka lán til íbúðakaupa á Íslandi og í evrulandi. Skoðum lán að upphæð 15 milljónir sem tekið var í upphafi árs 2000. Í dag er búið að greiða 149 sinnum af láninu. Þá hefur sá sem tók lán á Íslandi greitt samtals 16 milljónir en sá í evrulandi 15 milljónir. Það virðist nú ekki svo mikill munur. Hér er ekki allt sem sýnist. Eftirstöðvar íslenska lánsins eru 27 milljónir en af því sem var tekið í evrulandi 10 milljónir. Hér sést hinn mikli munur sem verður á því að taka lán í evru í evrulandi og því að taka verðtryggt krónulán á Íslandi. Eftir 12 ára greiðslur skuldar Íslendingurinn í þessu dæmi 16 milljónum meira en sá sem býr í evrulandi. Það getur enginn sætt sig við svona ástand – það er ólíðandi.

Reiknaðu þitt dæmi til enda

Þetta eitt og sér segir mér að tímabært sé að kveðja krónuna og taka upp aðra mynt. Besta og öruggasta leiðin til þess er að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Það er skynsamlegasti kosturinn í stöðunni.

Já, Ísland hefur sett upp reiknivél á vefsetri sínu, lan.jaisland.is, sem sýnir þennan mun svart á hvítu. Þar geta allir sem hafa tekið húsnæðislán frá og með árinu 1999 borið þau saman við sambærileg lán eins og þau eru að meðaltali í þeim ríkjum sem hafa tekið upp evru. Flestum mun sennilega bregða í brún að sjá á eigin skinni hvað krónan kostar þá mikið þegar þaki er komið yfir höfuðið.