Getur verið að við eigum eftir að finna hinn rétta tón í Evrópuumræðunni? Eru flestar þær raddir sem heyrast annaðhvort alltof tæknilegar eða alltof tilfinningasamar? Ég á sjálfur erfitt með að tengjast þeim málflutningi sem fer fram um Evrópusambandsaðild. Ég held að ég tali fyrir flesta, en ég er hvorki áhugamaður um tæknileg málefni Evrópusamstarfsins né hef ég orðið fyrir neinskonar tilfinningalegri köllun vegna málsins. Ég vil bara ræða þessi mál af skynsemi.

Málið varðar framtíð Íslands. Mér finnst skrítið að vera í þeirri stöðu að ræða framtíðina. Fólk af minni kynslóð er vant því að heyra talað um hlutina eins og breytingar séu eitthvað sem tilheyrir aðeins fortíðinni. Kynslóð foreldra minna heyrði foreldra sína tala um líf í torfbæjum, fyrir tíma tækninýjunga og efnislegra framfara. Afi minn fæddist í torfbæ og upplifði miklar breytingar á meðan hann lifði. Foreldrar minnar kynslóðar hafa svo sagt okkur unga fólkinu frá því að þau hafi fundið upp mannréttindin, mannúðina og velferðarkerfið. Að þau hafi gert byltingu sem við njótum svo góðs af í dag.

Það er ekki laust við að maður fái stundum minnimáttarkennd. Hverju á mín kynslóð að breyta? Fengum við ekki fullkomið samfélag í hendurnar? Samfélag efnislegra gæða og persónulegra réttinda? Er eitthvað eftir fyrir okkur að breyta og bæta? Erum við ekki bara kynslóðin sem mun bara geta valdið samfélaginu skaða?

Ég segi þetta til gamans – og það ber vissulega vott um sjálfselsku að kalla þessa aðstöðu vandamál – en ég nefni þetta samt, því ég veit að margir af minni kynslóð hugsa um hlutverk sitt á þennan hátt.

En ég veit líka að þetta er rangt. Samfélagið okkar er langt frá því að vera fullkomið og það á eftir að breytast mjög mikið á líftíma minnar kynslóðar – mun meira en við getum ímyndað okkur.

Það hefur tekið mig nokkurn tíma að átta mig á því, en íslenskt samfélag hefur þegar breyst gríðarlega frá því ég fæddist. Um það leyti sem ég fæddist fór fólk ekki oft til útlanda. Margir höfðu aldrei farið. Margir Íslendingar höfðu aldrei talað við útlending. Sumir kunnu ekkert annað mál en íslensku. Á borðum Íslendinga var borinn fram íslenskur matur, soðin ýsa og kartöflur, pasta þótti framandi, enginn hafði heyrt um avakadó. Þetta hljómar kannski ekki merkilegt, en þegar maður safnar saman öllum litlu dæmunum kemur í ljós að við lifðum í allt öðru samfélagi fyrir þrjátíu árum heldur en við gerum nú. Ísland var öðruvísi. Allt öðruvísi. Ekkert endilega verra eða betra, en allavega öðruvísi. Dagur í lífi venjulegs manns árið 1981 er svo frábrugðin degi í lífi venjulegs manns árið 2010, að það er varla hægt að ná utan um það. Ef einhverjum hefði verið sagt árið 1981 að þrjátíu árum síðar myndi hann eyða stórum parti af degi sínum skokkandi á hlaupabretti með áhyggjur af gengi japanska jensins, þá hefði hann ekki einu sinni vitað hvað væri verið að segja við hann.

Um þessar breytingar sem orðið hafa á Íslandi síðustu þrjátíu ár, til samanburðar við þær breytingar sem urðu hjá kynslóðunum á undan, hef ég eitt að segja. Við höfum haft minni stjórn á breytingunum. Þær hafa ekki áunnist vegna vilja og baráttu heldur skullu þær á okkur. Það gerðist svo hratt að við vissum varla af því. Mín kynslóð er líka að breyta heiminum, en hún er ekki jafn meðvituð um það og kynslóðirnar á undan. Við erum kynslóðin sem lendum í hlutum, þeir skella á okkur og stundum er eins og við höfum enga stjórn.

En nú má vera að við höfum skyndilega fengið ráðrúm til að hugsa aðeins okkar gang. Hvernig þjóð á Ísland að vera? Getum við náð einhverri stjórn á þeim breytingum sem sífellt eiga sér stað?

Málið snýst að sjálfsögðu um þá augljósu staðreynd að við erum sífellt meira háð umheiminum. En ég vil ekki einu sinni nota orðið “háð”. Við njótum umheimsins sífellt meira. Við erum hluti af honum, en ekki undir oki hans. Við njótum gæða heimsins og við gefum líka sitthvað til baka. Í því eru þessar breytingar fólgnar. Og hvort sem við trúum því eða ekki þá eru þessar breytingar ekki stjórnlausar.

Ég tel íslenskt þjóðerni mikils virði. Ég gef lítið fyrir barnalega þjóðerniskennd, en ég tel að hæfileg virðing fyrir því sem sameinar okkur, tungumálinu, menningararfinum og sögunni, sé ekki aðeins holl, heldur hverjum einstaklingi nauðsynleg á leið til þroska. Að eiga ekkert föðurland má jafna við að eiga ekki fjölskyldu. En þjóðernið breytist og þroskast rétt eins og sérhver einstaklingur. Það lærir af samneyti sínu við aðra.

Þannig vil ég nálgast þessa umræðu. Getur verið að Ísland sé stærra og sterkara sem þjóðríki innan ríkjasambands heldur en utan þess? Er ekki sá einstaklingur sterkastur sem hefur öruggt bakland vina og fjölskyldu? Hefur sá ekki meira sjálfstraust sem treystir vinum sínum fyrir leyndarmálum og lífsskoðunum heldur en bitri einstæðingurinn sem muldrar ofan í barm sinn?

Þetta vil ég að fólk hugleiði. Gleymið umræðu um bogna banana, styrkjakerfi í landbúnaði eða öðrum atriðum sem eru þrátt fyrir allt aðeins aukaatriði í hinu stóra samhengi.

Ísland er að breytast og þá á eftir að breytast enn meira. Ísland breytist því heimurinn breytist. Ég veit að við erum öll svolítið smeyk. Ég þekki hræðsluna og ég hef fundið hana sjálfur. En við hvað erum við hrædd? Erum við hrædd við að tapa þjóðerni okkar? Meira en helmingur ríkja Evrópu er aðili að Evrópusambandinu. Það hefur ekki útrýmt þjóðareinkennum þessara ríkja. Svíar og Frakkar eru alveg jafn miklir Svíar og Frakkar og þeir voru áður. Við hvað erum við svona hrædd?

Erum við hrædd um að tapa fiskinum, auðlindunum, krónunni, efnahagsstjórninni?

Nei. Við erum hrædd vegna þess að við höfum enga stjórn!

En það þarf alls ekki að vera þannig. Við þurfum bara að hætta að láta hlutina skella á okkur og taka meiri ábyrgð á stöðu okkar í umheiminum. Já. Við þurfum að þroskast aðeins. Brjóta odd af oflæti okkar og læra meira af öðrum.

Og fyrsta skrefið í þessum þroska er að eiga góða og málefnalega umræðu um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ég segi þetta því það er svo auðvelt að falla í skotgryfjur, kæfa málið með sérþekkingu eða tilfinningaákafa. Ég fer ekki fram á meira en að við tölum af auðmýkt og með víðsýni um þessi mál. Því ákvörðun um aðild að Evrópusambandinu er stór og mikil ákvörðun. Ákvörðun sem verður að rísa hærra en málefni líðandi stundar. Ákvörðun sem snýst um miklu meira en að finna skjótustu leið Íslands út úr kreppunni. Það er ákvörðun sem er beggja blands efnisleg og tilfinningaleg. Við munum aldrei geta sett kosti og galla inn í Excel skjal og látið reikna út útkomuna fyrir okkur. Við þurfum að vera miklu duglegri en það. Duglegri við að ræða saman, horfa til framtíðar og komast að því í sameiningu í hvernig landi við viljum búa.

Hættum að vera hrædd. Nú er kominn tími til að við tökum stjórnina.

Bergur Ebbi Benediktsson. Byggt á ávarpi höfundar á vinnuþingi Sterkara Íslands á Grand Hótel 6. febrúar 2010.