Andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu hafa eytt miklu púðri í sleggjudóma gegn því sem enginn berst fyrir.

Nú er svo komið að þeir líta  svo á að málið sé úr sögunni vegna efnahagsörðugleika sumra evruríkja. „Skiljanlega hagnýta aðildarandstæðingar þær aðstæður til hræðsluáróðurs. En eru það gild rök?“ spyr Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, í grein í Fréttablaðinu í dag.

„Svarið við þeirri spurningu ræðst fyrst og fremst af því hvort menn vilja móta langtímastefnu um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna eða láta hana ráðast af efnahagslegum sviptivindum frá einu misseri til annars. “

„Eitt er að taka lengri tíma í viðræður um aðild en ella vegna þess vanda sem Evrópusambandið glímir nú við. Annað er að þeir sem segjast nota þessi rök í alvöru gegn aðild eru ekki samkvæmir sjálfum sér nema viðurkenna um leið að Ísland eigi aldrei að vera í skipulögðum félagsskap með þjóðum sem eiga á hættu að lenda í efnahagsörðugleikum.

Talsmenn aðildarandstöðunnar eru því annað hvort einangrunarsinnar eða að nota þessar aðstæður í tímabundnum hræðsluáróðri. Hvorug skýringin er góð fyrir þá; en sú seinni þó skárri.“

Í lok greinarinnar segir Þorsteinn: „Andstæðingar Evrópusambandsaðildar þurfa að svara hvernig þeir hyggjast tryggja pólitíska og efnahagslega hagsmuni Íslands í alþjóðasamfélaginu til lengri tíma. Á að einangra landið? Ef ekki, hver er þá lausnin? Þögnin um þetta er dýpri en hljóðlaus málsvörn Samfylkingarinnar fyrir aðild.“

Hægt er að lesa grein Þorsteins í heild með því að smella hér.