Í grein dagsins fjallar G. Pétur Matthíasson, áhugamaður um betri íslenska framtíð, um áhyggjur og staðreyndir í umræðu um aðild Íslands að ESB, sem og hvers vegna hann telur aðild vera betri fyrir framtíð Íslands. Greinina má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Með aðild að Evrópusambandinu má búast við að lífskjör hins almenna manns muni batna. Verðlag verður lægra, vextir meira í takt við það sem eðlilegt er. Það verður því auðveldaraað koma sér þaki yfir höfuðið. Verðtryggingin verður óþörf. Svo nokkuð sé nefnt. Náist viðunandi samningar, sérstaklega um sjávarútveginn, má leiða að því líkum að stór hópur muni kjósa með samningi vegna þess að hagur þeirra muni batna.

Margir hafa skiljanlega áhyggjur af landbúnaðinum. Líklega eru þær áhyggjur á misskilningi byggðar. Sauðfjárbændur fluttu mikið af lambakjöti til Evrópusambandslanda á síðasta ári. Svo mikið að verslanir hér á landi kvörtuðu undan því að fá ekki nóg. Með aðild mætti stórauka útflutning sem augljóslega borgar sig fyrst menn velja þann markað heldur en þann innlenda. Vandamálið gæti því frekar farið aftur að snúast um ofbeit á afréttum en ekki fátækt sauðfjárbænda.

Mjólkurbændur eiga líka að eiga í fullu tré við innflutning og samkeppni. Við erum öll enn að borða íslenskt nammi sem á sér áratuga hefð svo sem kúlur, lakkrísrör eða Freyjurís. Og líka nýjungar einsog þrista, drauma og nóakropp. Hví ætti það sama ekki að gilda um íslenskar mjólkurafurðir? Verst yrði væntanlega útkoman hjá svína- og kjúklingabændum. En hvað eru þeir margir?

Þetta er samt ekki aðalástæða þess að mér hugnast aðild að Evrópusambandinu. Ég ætla ekki greiða atkvæði með veskinu þó ég muni auðvitað taka það með í reikninginn. Það eru svo margir aðrir mikilvægir þættir sem skipta máli. Þar á meðal hugsjónin um betri Evrópu. Hugsjón um frið, um samvinnu, um frelsi Evrópubúa til að búa, vinna eða stunda viðskipti þar sem þeir vilja. Hugsjón um mannréttindi, um rétt neytenda, um að láta ekki alþjóðastórfyrirtæki stjórna lífi okkar. Hugsjón um bætta afkomu almennings, um jöfnuð milli fólks, um jöfnuð milli landa. Og hugsjónin um betri Evrópu leiðir hugann að hugsjón um betri heim.

Það er langt í land. Betri heimur er ekkert handan við hornið. En ég vil fá að taka þátt í því og leggja mitt af mörkum til að gera heiminn betri. Lengi hafa þjóðir heims horft til norrænu ríkjanna sem fyrirmyndar þjóðfélaga. Evrópusambandið gerir það líka. Og það er fyrirmynd um að leysa vandamál saman og í samvinnu, en ekki með átökum. Og heimurinn mun líta til Evrópusambandsins sem fyrirmyndar.

Ég vil að Ísland leggi sitt af mörkum í því, ég vil að Ísland leggist á sveif með Norðurlöndum og auki þannig vægi þeirrar raddar innan Evrópu. Ég vil að Ísland horfi til hugsjónanna sem fólust í hugsjóninni um sjálfstætt Ísland, því þær eru náskyldar. Ég vil að við leggjum okkar af mörkum til að tryggja að tilraun Evrópuríkja um frið, samvinnu, mannréttindi og betri samskipti almennt takist og að þess vegna breiðist þessi hugsjón út um heim allan, einhvern tímann í framtíðinni. Sem fyrst vonandi.

Ég er kannski bláeygur en ég vil gera mitt fyrir betri framtíð. Ég vil ekki sitja hjá, sitja einn á heiðinni og glata öllu og sjálfum mér líka í þrjóskunni.