Eftir að Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu (ESB) í fyrrasumar hefur umræðan um sambandið færst upp á nýtt svið. Nú er ekki lengur rætt um hvort sækja beri um aðild og með hvaða hætti það skuli gert, heldur er rætt um samningaferlið og hvernig því skuli háttað. Enn eru þó nokkrir sem ekki geta sætt sig við hina lýðræðislegu ákvörðun Alþingis og telja að best sé að draga umsóknina til baka, en þeir eru fáir og mjög ólíklegt að til þess muni koma jafn vel þó skipt verði um ríkisstjórn á samningstímanum.

Þessa skoðun mína byggi ég á því að allir stjórnmálaflokkar á Íslandi eru í raun tilbúnir til þess að fá úr því skorið hvað sé í boði í Brussel og að ekki sé forsvaranlegt að varpa því tækifæri fyrir róða, þó svo að með því megi skora nokkur stig í pólitískri keilu. Málið yrði þá enn óleyst og jafn umdeilt eftir sem áður og til þess fallið að kljúfa flokkana innan frá. Því er skynsamlegra fyrir flokkana að láta ferlið ganga alla leið og leggja svo málið í dóm þjóðarinnar, þar sem það á heima. Þannig slá flokkarnir tvær flugur í einu höggi: leysa málið og komast hjá klofningi.

Eftir stendur að upplýst umræða um ESB er rétt að byrja. Þegar ég segi upplýst umræða á ég ekki við að öll umræða um ESB fram að þessu hafi verið óupplýst og villandi. Alls ekki. Margt mjög gott hefur verið skrifað um ESB á síðustu árum og má þar sérstaklega nefna vandaða umfjöllun íslenskra fræðimanna í ræðu og riti. Hitt er þó jafn satt að mikið hefur verið ritað og rætt um ESB sem ekki byggir á upplýstri þekkingu. Sú orðræða hefur einkum verið bundin pólitískum skoðunum og sett fram í þeim tilgangi að skerpa línurnar milli andstæðra sjónarmiða, með og á móti umsókninni sem slíkri. En þar sem þeirri spurningu hefur nú verið svarað á afgerandi hátt er engin ástæða til þess að halda áfram á þeirri braut. Nú er það allra hagur, jafnt fylgjenda sem andstæðinga aðildar Íslands að ESB, að umræðan verði upplýst og málefnaleg svo þjóðin hafi allar þær upplýsingar sem hún þarf á að halda til þess að geta tekið sína upplýstu ákvörðun að samningaferlinu loknu. Það getur ekki verið þjóðinni í hag að taka ákvörðun sem ekki er byggð á þekkingu og staðreyndum! Og ekki trúi ég því að nokkur maður vilji leggjast svo lágt að vilja vísvitandi blekkja þjóð sína í þeim eina tilgangi að hafa betur í pólitískum hráskinnaleik!

Þó svo að menn og konur greini á um málið þá verður ekki lengur haldið áfram á þeirri braut að ræða um ESB í upphrópunarstíl. Nú er það kalt mat á hagsmunum þjóðarinnar sem skiptir máli. Hvort vegur þyngra, kostirnir eða gallarnir við aðild að ESB? Því ljóst er að aðild fylgja bæði kostir og gallar. Spurningin er, hver verður niðurstaðan úr því reikningsdæmi?

Ég spurði hér að ofan, hvað er Evrópusambandið? Jafn einföld spurning ætti ekki að vefjast fyrir þjóð sem hefur hlustað á pólitíkusa þrátta um fyrirbærið frá því um 1960 eða í 50 ár. En ég er þó ekki viss um að allir geti svarað henni svo vel sé og kannski er ekki til neitt eitt rétt svar við þessari spurningu. Sambandið er í raun einstakt og fellur utan allra hefðbundinna flokka pólitískrar umræðu. Evrópusambandið er ekki ríki, ekki ríkjasamband og ekki venjuleg alþjóðastofnun. Evrópusambandið er samheiti yfir margvíslegt samstarf Evrópuríkja þar sem þjóðirnar deila fullveldi sínu á sumum sviðum en ekki öðrum. Á þeim sviðum þar sem fullveldið er óskert (öryggis- og varnarmál annars vegar og innanríkis- og dómsmál hins vegar) er þó um mjög mikið formlegt samstarf að ræða en án fullveldis framsals. Þar vinna ríkin saman á milliríkja grundvelli, fullvalda og fullkomlega sjálfstæð. Til þess að flækja málið enn frekar þá taka ekki öll aðildarríki ESB jafnan þátt í starfi sambandsins en eru þó fullgildir meðlimir eftir sem áður. Dæmi um þetta er Schengen og Evran. Bretland, Danmörk og Svíþjóð kjósa öll að standa utan Evru-samstarfsins og Írar og Bretar standa utan Schengen, en þar taka Danir og Svíar þátt ásamt Norðmönnum og Íslendingum.

Þessi einfalda skilgreining er ekki fullnægjandi en hún sýnir svo ekki verður um villst að ESB er ekki bara eitthvað eitt. Hér er um margháttað samstarf fullvalda ríkja að ræða sem hafa skuldbundið sig til þess að vinna saman að lausn sameiginlegra hagsmunamála og til þess að leysa deilur með samningum og samræðum í stað ofbeldis og stríðsátaka. Ísland er nú þegar mjög virkur þátttakandi í þessu samstarfi og svo mun án efa verða um langa framtíð.

Spurningin sem við stöndum frammi fyrir núna er þessi: Er Íslandi betur borgið sem fullgildur meðlimur í samstarfi lýðræðisríkja í Evrópu eða kjósum við að taka þátt án formlegrar aðildar og þá án formlegra áhrifa?

Einar Pétur Heiðarsson. Höfundur er MA nemi í alþjóðasamskiptum.