Í byrjun mars 2010 fór ég ásamt hópi íslenskra frumkvöðla í heimsókn til höfuðstöðva Evrópusambandsins í Brussel. Alls vorum við 13 Íslendingar úr ýmsum greinum atvinnulífsins. Auk mín voru í þessari ferð Eyjólfur Guðmundsson frá CCP, Hörður Harðarson frá svínaræktarfélagi Íslands, Vilborg Einarsdóttir frá Mentor, Sóley Elíasdóttir frá Sóley Organics, Þórunn Harðardóttir frá Norðursiglingu á Húsavík, Björn Víkingur Björnsson frá Fjallalambi á Kópaskeri, Erla Bjarney Árnadóttir frá Gogogic, Björn Lárus Örvar frá ORF Líftækni, Jón Ágúst Þorsteinsson frá Marorku, Arnar Knútsson frá Filmus, Helgi Haukur Hauksson frá félagi ungra bænda og Víðir Björnsson frá Norðurskel í Hrísey.

Í heimsókn okkar íslensku frumkvöðlanna til Brussel gafst okkur kostur á að hitta Dr. Joanna Drake sem er lögfræðingur frá Möltu og forstöðumaður á svið samkeppnishæfni lítilla og meðalstórar fyrirtækja (e.  Director of SMEs’ competitiveness).

Reynsla Maltverja

Dr. Joanna Drake greindi okkur Íslendingunum frá reynslu Maltverja af veru í Evrópusambandinu. Hún sagði einnig á mjög hreinskilin og heiðarlegan hátt frá reynslu Maltverja af samningaviðræðunum sjálfum og þeirri togstreitu sem ríkti innan maltnesku þjóðarinnar meðan á viðræðum stóð.

Malta er eyríki eins og Ísland og þar búa um 400 þúsund manns, aðeins fleiri en búa á Íslandi. Landið er 316 km2 og íbúar landsins tala eigið tungumál, maltnesku, auk ensku sem er mjög útbreidd. Stjórnvöld Möltu lögðu fram umsókn um aðild Möltu að Evrópusambandinu í júlí árið 1990 og það liðu 14 ár þar til Malta gekk síðan í sambandið; það var í maí árið 2004.

Skv. upplýsingum frá Dr. Joanna Drake skiptist maltneska þjóðin í tvær fylkingar meðan á aðildarviðræðum við Evrópusambandið stóð, með og á móti.

Fylking neikvæðra

Sú fylking sem var andvíg aðild Möltu að Evrópusambandinu ól á ótta við sambandsaðildina. Fjölskyldan er horsteinn samfélagsins á Möltu og konur óttuðust að synir þeirra yrðu sendir í Evrópuher sem brátt yrði stofnaður og látnir berjast á erlendum vígstöðvum. Margar konur voru því andvígar aðild Möltu að Evrópusambandinu  og töldu að sambandsaðild þýddi að fjölskyldum yrði sundrað. Lífskjör á Möltu voru ekki sambærileg við það sem gerðist best í Evrópulöndunum á þessum árum og því óttaðist fólk einnig að ungt fólk flytti brott til náms og betur launaðra starfa og kæmi aldrei aftur tilbaka. Stjórnendur fyrirtækja óttuðust samkeppni við evrópsk fyrirtæki sem greiddu hærri laun og óttuðust að missa vinnuafl úr landi. Sumir álitu jafnvel að lífkjör Maltverja myndu versna til muna  við að landið gengi í Evrópusambandið. Fólk leit gjarnan á Möltu sem „lítinn fisk“ sem yrði strax gleyptur af „stóra fiskinum“.

Fylking jákvæðra

Sú fylking manna sem var jákvæð gagnvart aðild Möltu að Evrópusambandinu leitaðist við að sjá tækifærin sem fælust í aðild. Það var fólk sem vildi að Malta fengi áhrif á vettvangi Evrópusambandsríkja, gjarnan fólk sem vildi sjá breytingar á stjórnarfari í átt að opnari og gegnsærri stjórnsýslu. Þessi fylking benti á ýmis spillingarmál og krafðist úrbóta, bættrar löggjafar og eftirlits með stjórnmálamönnum.

Almenn viðhorf fólks á Möltu

Dr. Joanna Drake minntist einnig á að meðan á aðildarviðræðum stóð hefði fólk verið mjög upptekið af því að hugsa um hvaða ávinning það hefði sjálft af því að þjóðin gengi í Evrópusambandið. Viðhorfið var gjarnan: “Hvað fæ ÉG?”

Þegar loks til þjóðaratkvæðagreiðslu kom samþykktu 54% íbúa á Möltu aðild að Evrópusambandinu.

Nú hefur þetta gjörbreyst, sagði Joanna Drake. Að hennar sögn hafa lífskjör batnað svo mikið á Möltu að nú ríkir almenn sátt um aðildina. Fólk horfir til tækifæranna sem felast í samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir og viðhorfskannanir þar í landi sýna að fólk er ánægðast með aukin lífsgæði, bætt hreinlæti, betri heilbrigðisþjónustu. Fólk nefnir einnig að spilling hafi minnkað og stjórnsýsla öll orðið opnari og gegnsærri. Umhverfismál skipta miklu máli og Maltverjum finnst að í þeim málum fái þeir mikinn stuðning Evrópusambandinu.

Evruaðild Möltu

Maltverjar tóku upp Evru árið 2008, það tók 4 ár en gekk vel. Evran hefur þýtt agi fyrir fólk, neytendur og stjórnvöld. Fólk lætur sig efnahagsmálin miklu meira skipta en áður fyrr. Nú, fyrri hluta árs 2010, er lítil kreppa á Möltu. Atvinnuástand er gott og stöðugt, þótt aðeins hafi dregið úr ferðamannastraumi. Mesta óánægjan er vegna ólöglegra innflytjenda og vandamálum sem þeim fylgja í þessu litla landi. Meira en 2000 flóttamenn og ólöglegir innflytjendur koma til Möltu frá Afríkuríkjum á ári hverju. Flestir þeirra líta á Möltu sem millilendingu á leið sinni til Ítalíu. Stjórnvöldum á Möltu ber skylda til að hjálpa þessu ólöglegu innflytjendum, en engin sameiginleg innflytjendastefna hefur víst enn verið mörkuð hjá Evrópusambandinu. Það gefur auga leið að það hlýtur að ve  agríðarlega kostnaðarsamt að halda öllu þessu fólki upp mánuðum og jafnvel árum saman.

Gæfuspor

Dr. Joanna Drake er sannfærð um að innganga Möltu í Evrópusambandið hafi verið gæfuspor fyrir Maltverja. Hún segir að almenningur hafi verið mjög vel upplýstur um öll mál þegar kom að atkvæðagreiðslu, eftir 14 ára umræður um kosti og galla aðildar Möltu að sambandinu. Hún gaf okkur Íslendingum þau ráð að vera heiðarleg og opin í allri umræðu um Evrópumálin hér á landi. Hún nefndi að umræðan á Möltu hefði á köflum verið mjög tilfinningaþrungin og illa hafi gengið að ræða við marga með rökum. Hún varaði við því að aðilar beittu hræðsluáróðri. Hún varaði einnig við því að embættismönnum væri beitt of mikið í Evrópuumræðunni. Betra væri að venjulegt fólk fengi tækifæri til að fræðast og kynna sér málin og það fólk fengi svo áfram tækifæri til að fjalla um Evrópumálin á mannamáli á opinberum vettvangi.

Ef endurtaka ætti

Loks spurðum við Dr. Joanna Drake hvað hún myndi vilja gera öðru vísi ef endurtaka ætti samningaviðræður Möltu við Evrópusambandið. Hún svaraði því til að nota hefði átt enþán meiri tíma í undirbúningsvinnu vegna samningsmarkmiða, kynningu og fræðslu til fólks. Hún nefndi einnig að meira gagnsæi hefði mátt vera gagnvart þjóðinni og að málflutningur hefði þurft að vera skiljanlegri. Embættismenn hefðu verið of áberandi í málflutningi og mikilvægt væri að nota mál sem venjulegt fólk skilur. Hún mælti með að fólk veldist til að tala inn í vissar atvinnugreinar og samfélagshópa. Evrópumálin eru á ábyrgð ríkisstjórnar en ekki einstakra flokka og forðast bæri að hafa umræðuna flokkspólitíska.

Lærum af reynslu Maltverja

Þessi fundur okkar íslenskra frumkvöðla með Dr. Joanna Drake rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sá auglýsingu ungra bænda með stríðsfyrirsögn og skriðdreka, sem birtist í dagblöðum nýverið. Sem fyrr segir var Helgi Haukur Hauksson formaður ungra bænda með í þeirri ferð sem ég hef hér greint frá. Hann ásamt öðrum var mjög gagnrýninn á upplýsingar sem lagðar voru fram á fundum okkar í Brussel. Hópurinn í heild var reyndar mjög gagnrýninn og tækifærin til að spyrja og afla upplýsinga voru óspart nýtt. En það sem ýtti mér út í þessi skrif núna er viðvörun sú sem Dr. Joanna Drake gaf okkur, að gæta þess vel að spila ekki með tilfinningar fólks á ómálefnalegan hátt í umræðum um Evrópusambandsaðild Íslands. Það finnst mér að hafi gerst þegar ungir bændur reyndu að skelfa fólk með því að leggja að jöfnu aðild Íslands að Evrópusambandinu og það að börnin okkar verði send í Evrópuher og látin berjast á erlendum vígvöllum. Sams konar umræða fór í gang á Möltu árið 1990, fyrir 20 árum síðan. Þar í landi náðu menn að lokum taki á taugaspennunni sem fylgdi umræðunni um Evrópusambandsaðild.

Reynum að læra af reynslu annarra þjóða. Leggjum okkur fram við skilgreina samningsmarkmið Íslands í viðræðunum sem framundan eru og verum dugleg við að afla okkur upplýsinga og miðla þeim áfram til annarra. Munum að við erum í rauninni öll í sama liði.

Svana Helen Björnsdóttir, forstjóri Stika og formaður Samtaka sprotafyrirtækja