Í Morgunblaðinu þann 27. febrúar var grein eftir Kristján Jónsson blaðamann sem bar heitið „Yrðuð að hleypa ESB-skipum inn“. Greinin byggði á viðtali við skoska íhaldsþingmanninn Struan Stevenson. Miðað við fyrirsögnina bjóst ég við að Stevenson væri mjög andsnúinn Íslendingum, en í ljós kom við lestur á greininni að hann telur einmitt að nýleg afgreiðsla þingsins styrki stöðu Íslands. Grípum niður í greinina:

„EVRÓPUÞINGIÐ fjallaði í vikunni um skýrslu sjávarútvegsnefndar þingsins sem gerð var um svonefnda Grænbók frá framkvæmdastjórn ESB um breytingar á stefnu sambandsins í málaflokknum. Þingið hefur umsagnarrétt um hugmyndirnar sem fara nú á ný til stjórnarinnar í Brussel. Skýrslan var samþykkt með verulegum breytingum á fundi þingsins á fimmtudag.

Gert er ráð fyrir að nýjar reglur hljóti endanlega afgreiðslu í sambandinu á næsta ári. Skoski íhaldsþingmaðurinn Struan Stevenson hafði gagnrýnt hart ákvæði þar sem gefið var undir fótinn með að leyfðir yrðu framseljanlegir veiðikvótar. Stevenson sagði að breytingar í þeim anda gætu endað með því að spænskir stórútgerðarmenn myndu rústa skoskan sjávarútveg.

Almennt er viðurkennt að sjávarútvegsstefna sambandsins, sem var formlega tekin upp 1983, sé eitt allsherjarklúður og hefur Stevenson verið framarlega í flokki gagnrýnenda. Hann er ekki síður andvígur hugmyndum um að slakað verði á reglum sem kveða á um svonefnda hlutfallslega veiðireynslu. þ.e. að söguleg veiðireynsla ráði. Margir álíta að reglan gæti dugað Íslendingum til að halda ESB-skipum utan lögsögunnar.“

Hér er semsé sagt að margir telji að regla „gæti dugað“ Íslendingum til þess að halda útlendum skipum utan lögsögunnar. Það er umhugsunarefni að blaðamaðurinn noti þetta orðalag, því að reglan er býsna afdráttarlaus. Höldum áfram lestri:

„Ég er býsna ánægður með að við höfum náð fram mikilvægum tilslökunum í tveim grundvallarmálum sem ollu breskum sjómönnum áhyggjum: aðganginum að miðunum og framseljanlegu kvótunum,“ sagði Stevenson í samtali við blaðamann. „Okkur tókst að ná fram mikilvægum breytingum á textanum. Ég lagði fram breytingatillögu þar sem sagði að ef gerð yrði einhver tilraun til að breyta núverandi reglum um aðgang að miðum yrði ávallt tryggt að sjómenn á staðnum hefðu forgang þegar kæmi að veiðirétti.“

Stevenson virðist því hafa stuðlað að því að reglan um aðgengi að miðunum haldi áfram (hún segir að einungis þeir sem hafa veiðireynslu fái að veiða) Greinin heldur áfram:

„Aðspurður segir Stevenson að niðurstaðan á Evrópuþinginu hljóti að vera góð tíðindi fyrir Íslendinga sem vilja ekki að Spánverjar og fleiri ESB-þjóðir fái að veiða hér eins og heimamenn. Nú séu auknar líkur á að reglan um hlutfallslegan stöðugleika haldi, segir hann. Hins vegar sé að sjálfsögðu ekki hægt að útiloka neitt, alltaf sé hægt að breyta reglum af þessu tagi síðar. En gera breskir sjómenn sér vonir um aðgang að Íslandsmiðum?

„Þið getið ekki gengið í klúbbinn okkar með skuldirnar einar í eftirdragi, þið verðið að taka eignirnar ykkar með líka! Þið yrðuð að hleypa ESB-skipum inn, nokkrum skipum þótt megnið af veiðunum yrði á ykkar hendi. En íslensk skip fengju á móti aðgang að miðum í öðrum ESB-ríkjum.“

Sú spurning vaknar hvers vegna blaðamaðurinn lagði ekki áherslu á „ góð tíðindi fyrir Íslendinga sem vilja ekki að Spánverjar og fleiri ESB-þjóðir fái að veiða hér eins og heimamenn“. Kannski sá hann fréttapunkt í því að Íslendingar yrðu að hleypa nokkrum skipum inn þótt megnið af veiðunum yrði á okkar hendi. En úr þeim punkti er ekkert gert í fréttinni.

Ég taldi hins vegar að þarna gætu verið stórtíðindi og skrifaði þingmanninum Strue Stevenson og spurði hvaða regla gæfi skipum úr Evrópusambandslöndunum rétt til að veiða á Íslandsmiðum, hve mörg þau skip yrðu og hvernig íslensk skip yrðu valin til þess að veiða að miðum í Evrópusambandsríkjum. Svar hans var svona:

„ Dear Benedikt,
Thanks for your e-mail. I don’t think Iceland has anything to fear from joining the CFP [common fishing policy]. As you point out, you have 30 years of track records to demonstrate Icelandic rights of access under relative stability rules which we will fight to maintain.

Under the CFP, there will be an opportunity to negotiate with neighbouring member states on access rights, so that Icelandic vessels may get same access to EU fisheries and vice versa. We are moving towards recognition that micro-management from Brussels has been a failure, so any reform of the CFP will involve devolving fisheries management to the stakeholders. This again will allow Iceland to retain considerable autonomy over the management of their fishery.

I hope these points reassure you.“

Evrópuþingmaðurinn telur að Ísland þurfi ekkert að óttast vegna sameiginlegu fiskveiðistefnunnar. Menn geti ákveðið að skiptast á veiðiheimildum milli ríkja, en segir ekkert um að Evrópuríki hafi einhvern rétt til veiða hér. Hann telur að Ísland muni halda mikilli sjálfstjórn, enda hafi stjórnun frá Brussel brugðist.

Eftir stendur að fyrirsögn Morgunblaðsins var hvorki í samræmi við fréttina sjálfa né þær reglur sem gilda um fiskveiðiréttindi í Evrópusambandinu. Blaðamaðurinn hefur misskilið ákveðin ummæli þingmannsins og í stað þess að spyrja hann frekar út í þau velur hann þau sem fyrirsögn. Slík blaðamennska nýtist ekki í upplýstri umræðu og óvenjulegt að sjá hana í Morgunblaðinu sem ætíð hefur gætt þess að blanda ekki saman fréttaskrifum og skoðunum blaðsins eða einstakra blaðamanna.

Benedikt Jóhansson