gautiGauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræðum, skrifar áhugaverða grein á Hugrás, vefrit Hugvísindasviðs, þar sem hann veltir upp spurningunni um hvað andstæðingar ESB vilja og nefnir dæmi um hvaða gæði gætu horfið með ESB, sundrist sambandið.

Gauti segir meðal annars:

„Þessi spurning á ekki aðeins við á Íslandi. Jaðarflokkar ýmiss konar þjóðernissinna hafa fengið aukið fylgi víðs vegar um Evrópu eins og sjá má af uppgangi Sjálfstæðisflokks Sameinaða konungdæmisins (United Kingdom Independence Party, Ukip) á Bretlandi í nýlegum kosningum og nú síðast er orðinn til flokkur í Þýskalandi, Valkostur fyrir Þýskaland (Alternative für Deutschland), sem við fá þýska markið sitt aftur.  Sameiginlegt með þessum hreyfingum flestum er að þær vilja afturhvarf til einhverra fyrri tíma, „fullveldis“ ríkja, eigin myntar, landamæragæslu. Þessi þrjú atriði eru kannski þau helstu sem rætt er um frá ýmsum hliðum.

Það verður fróðlegt að fylgjast með atganginum í Bretlandi eftir síðasta sigur Ukip í sveitastjórnarkosningum, en ekki er óhugsandi að Bretar fái færi á að kjósa sig úr ESB á næstunni, eins og heimilt er samkvæmt Lissabon sáttmálanum.

Óvíst er um niðurstöðuna þar en þjóðaratkvæði í Bretlandi um áframhaldandi veru í ESB gæti breytt miklu. Englendingar gætu þannig kosið sig nánast samtímis út úr ESB og Sameinaða konungdæminu. Á hinn bóginn gæti ákvörðun Englendinga orðið til þess að ESB sundraðist og athyglisvert væri að sjá hvað út úr því kæmi. Nokkrir möguleikar:

  1. EES-samningurinn verður að engu.
  2. Innri markaðurinn leggst af og tollvernd verður tekin upp á ný.
  3. Frjáls för fólks verður af lögð og full landamæragæsla tekin upp. Ekki verður sjálfgefið fyrir Evrópubúa að flytja milli ríkja Evrópu og stunda þar vinnu eða nám. Líkast til þyrftu þeir sem hafa tímabundin atvinnuleyfi í öðrum Evrópuríkjum að snúa heim.
  4. Ýmis styrkjakerfi ESB, einkum til stuðnings landbúnaðar og dreifðra byggða yrðu lögð af og aðildarríkin yrðu að sjá um þá hluti sjálf að öllu leyti.
  5. Samstarf háskóla minnkaði umtalsvert og sameiginlegir rannsóknasjóðir lagðir af. Skiptinám nemenda yrði háð tvíhliða samningum og menntamenn smáþjóða ættu lítinn kost á rannsóknafé sem um munar. Afleiðingin verður spekileki til stóru ríkjanna.“

Greinina má lesa í heild sinni hér.