Grein dagsins skrifar Einar Páll Svavarsson. Í henni fer hann yfir þær forsendur sem leggja skal til grundvallar þegar aðild Íslands að Evrópusambandinu er metin, en á meðal þeirra er efnahagsástand síðustu áratuga, saga Evrópusambandsins, heimilin í landinu,  matarverð, vextir og krónan. Einnig fjallar Einar Páll um nauðsyn þess að almenningur fái að kjósa um samninginn að loknum aðildarviðræðum.

Greinina má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Eitt af því sem er mikilvægt að hafa í huga þegar við tökum afstöðu til Evrópusambandsins er að meta áhrifin sem aðild hefur  á stöðu okkar sem einstaklingar eða stöðu fjölskyldunnar í samfélaginu.  Ekki eingöngu hvaða áhrif aðildin hefur á afkomu ákveðinna sérhagsmunahópa sem halda málefnum sínum og hagsmunum  á lofti hverju sinni.  Horfa skal á áhrifin sem aðild hefur á okkar nánasta umhverfi  og það líf sem við lifum frá degi til dags og setja svörin í forgrunninn.  Spurningin sem sérhver almennur borgari þarf að spyrja sjálfan sig þegar hann tekur afstöðu til Evrópusambandsins er þessi:  Hver er ávinningurinn af fullri aðild Íslands að Evrópusambandinu fyrir mig?  Fyrir mig sem almennan borgara sem þarf að kaupa húsnæði, matvöru, fatnað, skólavörur, húsgögn, tölvu, síma, bíl og annað sem tileyrir nútímasamfélagi.   Fyrir mig sem sem faðir eða móðir eða neytanda  eða lántakanda?

Samanburður við liðna áratugi

Það sem þarf að bera saman við svarið við þessari spurningu er staða okkar sem almennir borgarar síðustu áratugina og það efnahagslega og pólitíska umhverfi sem við höfum búið við.  Sem dæmi má nefna að frá því að ég kom út á vinnumarkaðinn eftir nám árið 1983 hefur stjórn efnahagsmála  hér á landi gengið ákaflega illa og sjaldnast verið í samræmi við þann stöðugleika sem ríkt hefur í okkar helstu nágrannaríkjum og hjá þeim þjóðum sem við viljum bera okkur saman við.  Jafnvel á þeim árum sem stjórn efnahagsmála virtist ganga vel og ráðamenn töluðu um skuldlausan ríkissjóð og gósentíð var stjórn efnahagsmála raunverulega í algjörum ólestri, eins og síðar kom á daginn.  Þetta átti einnig við um  árin og áratugina fyrir 1983. Íslenskum stjórnmálamönnum hefur almennt gengið frekar illa að stjórna efnahagsmálum og ríkisstjórnir hafa sprungið hvað eftir annað vegna  samstöðuleysis íslenskra stjórnmálamanna við að ná tökum á efnahagsmálum.  Þegar ég lít til um öxl eru það hugtök eins og óðaverðbólga, gengisfellingar, háir vextir, veikur gjaldmiðill, víxlverkun verðlags og launa, skuldsett heimili og óhagstæður viðskiptajöfnuður sem standa uppúr sem einkenni fyrir íslenska efnahagsstjórn.  Við sem höfum lifað þessa tíma sem almennir borgarar og fylgst með glímu,  brölti og átökum stjórnmálamanna  og hagsmunaafla í kringum skilgreiningu á virði krónunnar höfum jafnan fundið fyrir áhrifunum  á okkar eigin skinni með margvíslegum hætti.  En ákvörðun um virði krónunnar hefur jafnan verið sú pólitíska þungamiðja sem hefur átt stóran þátt í að skilgreina kjör fólks á Íslandi.

Matarverð, vextir og krónan

Fyrstu áhrifin af slakri efnahagsstjórn sem mættu minni kynslóð þegar við komum út á vinnumarkaðinn voru óhagstæðir vextir og mikil áhrif verðbótaþáttarins.  Tvö efnahagsleg fyrirbæri sem gerðu okkur strax erfitt fyrir við að eignast húsnæði.  Einnig blasti við óhófleg hækkun matar- og vöruverðs sem oft á tíðum átti beinar rætur í tímabundna niðurstöðu í hagsmunaslagnum um krónuna; nefnilega gengisfellingu.  Þegar dvínandi kaupmáttur skall á almenning með reglulegum sveiflum urðu áhrifin gjarnan mun áþreifanlegri fyrir afkomu heimilanna.  Í marga áratugi var t.d. sú staða viðvarandi að höfuðstóll lána hækkaði við hverja afborgun í stað þess að lækka.  En hvort sem við upplifðum gegnum þessa tíma örstutt skeið stöðugleika eða langt skeið óðaverðbólgu,  eru nokkur atriði sammerkt öllum þessum tímum.  Vextir hafa alla tíð verið mun hærri og umtalsvert hærri hér á landi en í flestum öðrum vestrænum löndum. Þegar áhrifum verðtryggingar er bætt við verður vaxtasamanburðurinn mun óhagstæðari.  Þetta hefur gert mörgum erfitt fyrir við ákvörðun um að eignast þak yfir höfuðið. Matvöruverð hefur alltaf verið töluvert hærra hér á landi en í nágrannalöndunum.  Þá hefur gjaldmiðillinn okkar, krónan, alla tíð verið lítils virði og e.t.v. verið það efnahagslega óstjórnartæki sem hefur haft verstu áhrifin á stöðu heimilanna.

Byrjum matið heima hjá okkur

Af þessum ástæðum og út frá ofangreindri reynslu sem almennur borgari í þessu landi tel ég bæði mikilvægt og nauðsynlegt að við byrjum matið á hugsanlegri inngöngu í Evrópusambandi heima hjá okkur. Þetta er enn mikilvægara þegar við sjáum í dag að það er jafn erfitt, ef ekki erfiðara, fyrir ungt fólk að eignast þak yfir höfuðið eins og það var á sjöunda, áttunda og níunda áratug síðustu aldar.  Vextir eru enn of háir miðað við nágrannalöndin, verðtryggingin er enn í fullu gildi, matarverð er enn of hátt, gjaldeyrishöft gyrða fyrir eðlilega uppbyggingu atvinnulífsins og draga úr eðlilegum fjárfestingum, stýring á virði krónunnar er ennþá sama óstjórnartækið hvort sem stýringin byggir á ákvörðun í Seðlabankanum eða niðurstöðu úr átökum hagsmunaafla og stjórnmálamann.  Og síðast en ekki síst er kaupmátturinn algerleg berskjaldaður við þessar aðstæður og verðgildi launa þar með líklegt til að halda áfram að sveiflast niður á við.  Og þá er stutt í verkföll og hatröm átök á vinnumarkaðnum.  Umgjörðin er sláandi lík þeirri óheillastöðu sem var til staðar árið 1983.  Þar að auki virðist atgervi, siðferði og skotgrafahernaður nútíma stjórnmálamannsins ekki gefa tilefni til að álykta að þeim takist betur uppi en þeim sem stjórnuðu landinu síðustu áratugi 20. aldarinnar. Allt bendir til þess að staða hins almenna borgara verði sú sama árið 2040 og hún er í dag, ef ekkert verður að gert.

Árangur Evrópusambandsins

Fyrir utan þau stórtæku jákvæðu áhrif sem Evrópusambandið  hefur haft á frið í heimsálfu sem háði tvær mannskæðar styrjaldir á síðustu öld, hefur sambandið laðað fram nauðsynlegan kraft, uppbyggingu og stöðugleika sem er undirstaða velmegunar og mannsæmandi lífs.   Þetta eitt og sér ætti að nægja til að við skoðum aðild af mikilli alvöru.  Evrópusambandið hefur sett sér reglur sem sannarlega skapa betra mannlíf.  Margt af því hefur komið að gagni hér á landi í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.  Evrópusambandið hefur jafnframt sett frelsi á oddinn og rutt brautina fyrir opnari samfélögum og tíðari og eðlilegri samskiptum þjóða í milli á mörgum sviðum.  Evrópusambandið hefur þannig náð miklum árangri í að viðhalda friði í álfunni og byggja upp stöðugleika og velmegun til margra áratuga í stórum og fjölmennum ríkjum.  Árangur sem byggir á samspili taumhalds og frelsis.   Enda er Evrópusambandið ekki töfrasproti sem leysir öll vandamál heldur tæki til þess að leysa vandamál.  En það er einmitt áberandi verkefni sambandsins þessi misserin og ætti frekar að sýna okkur gildi og styrk Evrópusambandsins fremur en að snúa öllu við og telja það sýna ógöngur Evrópusambandsins.

Stjórnmálamenn virði lýðræðislegt ferli aðildarviðræðna

Eftir að hið lýðræðislega ferli um aðildarviðræður okkar við Evrópusambandið fóru af stað er ákaflega mikilvægt að samstaða haldist um að klára það ferli.  Það er að mínu mati skylda allra stjórnmálamanna að sýna þeirri lýðræðislegu ákvörðun sóma og virðingu og skapa um viðræðurnar frið.  Það er einnig nauðsynlegt að öll sjónarmið og allir hagsmunir, t.d. þýðingarmikil sjónarmið hagsmunaaðila í sjávarútvegi og landbúnaði, fái að koma vel fram og ekki sé að neinu anað.  Þetta er að minnsta kosti sú virðing sem stjórnmálamenn geta sýnt okkur almennum borgurum eftir að við höfum umborið afleiðingar af þeirra frekar misheppnuðu efnahagsstjórn til margra áratuga.  Að ekki sé minnst á umburðalyndi okkar gagnvart sjálfu hruninu og öllum þeim hildarleik. Allar hugmyndir um að stöðva samningaferlið sýna bæði óvirðingu við lýðræðið og mikla óvirðingu við almenna borgara landsins.  Slíkar hugmyndir sem koma fram í miðju ferlinu endurspegla slæma stjórnkænsku þar sem stjórnmálamaðurinn er að lýsa því yfir með heldur hrokafullum hætti að hann hafi meira vit en við, hinn almenni borgari.   Okkur sé ekki treystandi til að taka þessa ákvörðun.

Hvers vegna vilja almennir borgarar fá að meta stöðuna í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Það sem við viljum fá að vega og meta þegar samningurinn verður lagður í þjóðaratkvæði er þetta:  Er líklegt að innganga í myntbandalagið og aðdragandi að þeirri inngöngu muni veita okkur og komandi kynslóðum betri vaxtakjör?  Er ekki líklegt að með inngöngu í Evrópusambandið falli verðtryggingin niður og þar með verði vaxtakjör heimilanna sambærileg við þær þjóðir sem við berum okkur saman við?  Verður stöðugleiki ekki meiri þegar við erum með sama gjaldmiðil og flestar Evrópuþjóðir og verða þá ekki gengisfellingar og gengisákvarðanir úr sögunni með öllum þeim stórbrotnu efnahagssveiflum sem krónan veldur.   Er ekki líklegt að matarverð lækki og verðlag á öðrum vörum verði stöðugra?  Þetta eru eingöngu nokkrar af þeim grunnspurningum sem við viljum fá svar við þegar búið er að ljúka aðildarviðræðunum?  Og á grundvelli þeirra svara tökum við ákvörðun sem tekur mið af okkar hagsmunum sem almennir borgarar án þess þó að horfa framhjá hagsmunum þeirra atvinnugreina sem telja sig verða fyrir breytingum. En þetta sjáum við ekki fyrr en aðildarviðræðunum lýkur.