Í dag, þann 14. október, birtist svar á Evrópuvefnum við spurningunni „hvaða hag og óhag hefur íslenskur landbúnaður af aðild að Evrópusambandinu?“

Í svarinu við spurningunni kemur meðal annars fram að það kerfi sem við búum við nú myndi breytast í grundvallaratriðum: „tollverndin yrði afnumin á fyrsta degi og framleiðslutengdar greiðslur til bænda lækkaðar verulega. Það kæmi þó afar misjafnlega niður eftir greinum landbúnaðar. Framleiðsla á eggjum og því sem nefnt er hvítt kjöt – alifugla- og svínakjöt – ásamt hluta mjólkurframleiðslunnar yrði harðast úti en sauðfjárrækt og grænmetisframleiðsla slyppi mun betur. Þetta er þó allt sagt með fyrirvara um það hvernig aðildarsamingar nást.“

Þá segir að „vandi bænda hér á landi er sá sami og í Evrópu: Byggð hefur hopað í dreifbýli og við það rýrna lífskjör bænda, þjónusta dregst saman og verður bæði dýrari og harðsóttari eins og við heyrum oft í fjölmiðlum. Auk þess dofnar yfir félagslífi vegna fámennis þó að bættar samgöngur komi að nokkru á móti. Styrktarkerfi sem miðast fyrst og fremst við hefðbundna búvöruframleiðslu og magn hennar breytir engu um þessa þróun. Það sýnir sagan.

Þessi vandi er ekki einkamál bænda heldur varðar hann allt samfélagið. Land sem er jafnstrjálbýlt og Ísland má ekki við því að byggðin gisni enn meir en orðið er. Þess vegna er brýn þörf á því að losa um fé sem nú rennur til framleiðslustyrkja í landbúnaði og beina því í aðrar brautir þar sem það mundi í raun styrkja byggð í landinu. Það gagnast svo aftur bæði bændum og öllu samfélaginu.“

Loks segir að „hvað þetta varðar hefðu bændur augljósan hag af aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þar hafa styrkir til landbúnaðar tekið miklum breytingum undanfarin ár. Dregið hefur verið úr framleiðslutengdum styrkjum en í þeirra stað innleiddar beingreiðslur sem miðast við búsetu í sveitum. Stuðningur við búrekstur beinist í sífellt meiri mæli að því að styrkja bændur til að viðhalda landbúnaðarlandi, bæta umhverfið og taka upp vistvænni framleiðsluhætti. Með því síðastnefnda er bæði átt við framleiðslu lífrænna afurða og sjálfbæra orkuframleiðslu, og má nefna sem dæmi lífeldsneyti, vind- og vatnsorku.“

Vert er þó að taka fram, eins og kemur fram á Evrópuvefnum að „erfitt er að meta í smáatriðum hver yrði hagur eða óhagræði íslenskra bænda af aðild að Evrópusambandinu. Framundan eru samningar um þau skilyrði sem Íslendingum bjóðast við aðild og þau geta breytt myndinni í grundvallaratriðum. Bændur munu njóta þeirra almennu breytinga sem vænta má að verði á rekstrarumhverfi fyrirtækja vegna lægri vaxta, minni gengissveiflna og aukins stöðugleika í fjármálum.“

Lengra svarið við spurningunni má lesa hér: http://evropuvefur.is/svar.php?id=60883