Á undanförnum misserum hafa íslenskt fyrirtæki, þá sérstaklega sprotafyrirtæki, bent á að það sé nánast útilokað að byggja upp fyrirtæki á Íslandi í umhverfi krónunnar. Hinar gríðarlegu sveiflur og óstöðugleiki geri allar áætlanagerð óframkvæmanlega. Umsókn að Evrópusambandinu er stórt skref í á að tryggja íslensku hagkerfi stöðugleika.

Uppbygging sprotafyrirtæka af heppilegri stærð er það sem við eigum að skoða. Við höfum sýnt mikla færni á því sviði, öflugt og sveigjanlegt vinnuafl og eigum verðmæt sprotafyrirtæki, sem geta gert stóra hluti ef þeim verður búið eðlilegt umhverfi. Það hefur komið fram að þessi fyrirtæki sjá ekki sína framtíð hér í óbreyttu efnahagsumhverfi og óbreyttum gjaldmiði. Þau hafa einnig bent á að þau gætu flutt heim nokkur hundruð atvinnutækifæri sem búið er að flytja erlendis.

Nú þegar eru allmörg fyrirtæki flutt frá Íslandi vegna krónunnar, annað hvort alfarið eða með meirihluta starfsemi sinnar. Má þar nefna Hamiðjuna, 66° norður, CCP, Marel, Össur og Actavis. Allnokkur fyrirtæki þar á meðal nokkur lítil til viðbótar við hin áðurnefndu stóru, eru búin að skipta yfir í Evru þó svo þau séu með starfsemi hér, en þau hafa öll lýst því yfir að þau sjái enga framtíð eða vaxtamöguleika hér.

Það þýðir í raun að ef ekki verður af því að Ísland hverfi frá sinni ofurdýru krónu með þeim okurvöxtum sem henni fylgja, þá verða hér einungis í boði störf í svokölluðum grunnstoðum. Það er fiskvinnslu og útgerð. Landbúnaði og álverum, ásamt opinberum starfsmönnum. Í þessum greinum er atvinnuleysi lítið sem ekkert, á meðan það er allt í þjónustu- og tæknigreinum.

Sé litið til félagsmanna Rafiðnaðarsambandsins, þá hefur ekki verið nein fjölgun í hinum títtnefndu grunnstoðum atvinnulífsins á undanförnum árum, einungis í tæknigreinum. Öll fjölgun á vinnumarkaði hefur verið í tækni- og þjónustufyrirtækjum.

Það hefur ætíð verið lítið atvinnuleysi utan höfuðborgarsvæðisins vegna þess að fólk sem ekki hefur haft atvinnu hefur flutt frá landsbyggðinni og unga fólkið hefur ekki flutt til heimaslóða eftir að hafa lokið námi. Nú stefnir í að þetta muni breytast á þann veg að nú muni fólkið á höfuðborgarsvæðinu leita til ESB-landa eftir atvinnu og unga fólkið ekki koma heim eftir að hafa lokið framhaldsnámi í ESB-löndum, eins og t.d. Svíþjóð og Danmörku þar sem stærstu námsmannahóparnir hafa verið.

Það þarf að skapa um 20.000 þúsund störf hér á landi á næstu 4 árum ef það á að takast að koma atvinnuleysi niður fyrir 5%. Þessi störf er ekki að finna í landbúnaði eða sjávarútvegi, þau er að finna í iðnaði og sprotafyrirtækjum. Ef við ætlum að komast upp þessari lægð kallar það á 4 – 5% hagvöxt. Svipaðan hagvöxt og var hér á nýliðnu háspennuhagvaxtar skeiði, sem reyndar hafði ekki alltof þægilegar afleiðingar.

Guðmundur Gunnarsson