Ég hlusta óneitanlega dálítið undrandi á ræður þeirra sem hafna að skipta um gjaldmiðil og að ganga í ESB. Íslenska krónan er örlítil og auðveld bráð í höndum „fjármálaspekulanta“ eins og við höfum upplifað með svo sársaukafullum hætti. Krónan er svo lítil að fjárglæframennirnir geta auðveldlega skapað sveiflur sem eru þeim hagstæðar, en bitna á íslenskum heimilum í formi falls krónunnar, hækkandi verðbólgu og vaxta og þá vitanlega í verðlagi og minnkandi kaupmætti. Við okkur blasir sú staðreynd að ráðast verður að rótum þeirrar spillingar sem er hér í fjármálum og þeirri „hyglingu“ sem ráðandi stjórnmálamenn hafa nýtt sér á hverjum tíma.

Í nágrannalöndum okkar sem eru innan ESB er verðlag lægra, verðbólga 2 – 4%, vextir 4 – 6%. Þar ríkir stöðugleiki og þar getur fólk gert langtímaáætlanir um uppbyggingu heimila sinna sem standast. Forsvarsmenn íslenskra fyrirtækja segjast ekki geta rekið sín viðskipti með krónunni og utan ESB. Þeir hafa flutt starfsstöðvar héðan inn á Evrusvæðið og störfum hér fækkar, en þeir benda á að þessar starfstöðvar mætti flytja allar hingað ef Ísland skipti um gjaldmiðil með mjög stuttum fyrirvara. Um er að ræða um 2.000 störf

Hverju myndi ESB aðild breyta fyrir íslenska neytendur?
Evrópufræðasetrið við Háskólann við Bifröst hefur unnið skýrslu fyrir Neytendasamtökin „Hverju myndi ESB aðild breyta fyrir íslenska neytendur?“ Í skýrslunni eru skoðaðir kostar og gallar og þeir metnir út frá hagsmunum íslenskra neytenda.

Helstu niðurstöður eru:

  • Með aðild að ESB yrði Ísland um leið aðili að tollabandalagi ESB. Því myndu þeir tollar sem enn eru milli Íslands og ESB landanna falla niður og munar þar mestu um landbúnaðarvörur. Þetta myndi skila sér í lægra verði á þessum vörum. Tollar gagnvart ríkjum utan ESB gætu í sumum tilvikum hækkað.
  • Með aðild að tollabandalaginu myndu netviðskipti við fyrirtæki innan ESB verða ódýrari og einfaldari. Slíkt myndi auka samkeppni gagnvart ýmsum innlendum fyrirtækjum.
  • Ljóst er að samhliða aðild þyrfti að endurskipuleggja íslenskan landbúnað á sama hátt og Svíar og Finnar gerðu áður en þessi lönd gengu í ESB. Draga þyrfti úr stuðningi við íslenskan landbúnað en nú er sá stuðningur með því hæsta sem gerist. Það er hins vegar ljóst að við eigum góða möguleika að ná samningum varðandi stuðning við innlendan landbúnað miðað við þá samninga sem Finnar náðu fram, þar sem allt Ísland fellur undir skilgreiningu um landbúnað á harðbýlu svæði eða heimsskautalandbúnað. Vegna þessa eru möguleikar á að fá meiri styrki til íslensks landbúnaðar frá ESB en lönd sunnar í álfunni fá. Einnig er mögulegt að íslensk stjórnvöld fengju heimild til að styrkja landbúnað sinn meira en gildir um önnur lönd innan ESB.
  • Talið er að matvælaverð geti lækkað um allt að 25% með inngöngu Íslands í ESB.
  • Með aðild að myntbandalagi ESB má gera ráð fyrir að vextir á íbúðarlánum myndu lækka töluvert. Erfitt er hins vegar að segja til um hve mikil sú lækkun yrði. Minnt er á að hvert prósentustig hefur mikla þýðingu fyrir heimilin.
  • Með aðild að ESB og myntbandalaginu myndi viðskiptakostnaður lækka og ætti slíkt að leiða til lægra vöruverðs.
  • Ætla má að með aðild myndu viðskipti og fjárfestingar erlendra aðila aukast hér á landi og þar með yrði samkeppnin meiri.
  • Með aðild að ESB myndu Íslendingar geta sótt í ýmsa sjóði sem ekki er mögulegt í dag. Þar má nefna styrki til landbúnaðar og til byggðamála. Einnig yrði samstarf við lönd ESB öflugra á ýmsum sviðum eins og í mennta- og menningarmálum, rannsóknum og félagsmálum.

Rétt er að taka fram að Neytendasamtökin eru ekki með þessari skýrslu að taka afstöðu hvort við eigum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Neytendasamtökin vilja hins vegar leggja sitt að mörkum til að fram fari opinská og málefnaleg umræða um kosti og galla slíkrar aðildar og er skýrslan framlag samtakanna til þeirrar umræðu. Hægt er að lesa skýrslunar skýrsluna í heild sinni hér.

Guðmundur Gunnarsson