Í grein dagsins hér fyrir neðan segir Hörður Unnsteinsson okkur frá því hvernig hann gerðist eiginlega evrópusinni, á heitum vordegi á Sikiley árið 2004.

Það að opinbera mig sem evrópusinna á mannamótum eða í fjölskylduboðum hefur oftar en ekki vakið upp furðulega sterk viðbrögð og sett mig í talsvert erfiða aðstöðu. Ekki þó svo að skilja að ég skammist mín á nokkurn hátt fyrir afstöðu mína eða reyni að forðast umræðuefnið á nokkurn hátt, heldur virðist það vera orðin regla fremur en undantekning að framhleypnir kunningjar og fjarskyldir ættingjar gangi mjög hart fram í því að fá frá mér haldbæran rökstuðning fyrir þessari mjög svo umdeildu skoðun minni – og oftast er fussað og sveiað þegar ég verð við slíkri bón.

Það verður að nóterast að þó ég búi og stundi mitt nám í Reykjavík þá er ég fæddur og uppalinn á landsbyggðinni og það fólk sem ég umgengst alla jafna hefur sterka tengingu við sveitina og er mjög annt um hag landbúnaðar og ekki síður sjávarútvegs.  Ég lenti því oft í þeirri aðstöðu að þurfa rökstyðja það hvernig landbúnaður okkar gæti vel orðið samkeppnishæfari og sterkari með aðild að Evrópusambandinu og að við þurfum ekkert að óttast það að missa neinn kvóta í hendur annara landa Evrópu. Með öðrum orðum hef ég stundum náð að festa mig það mikið í því að svara fyrir hinar ýmsu rangfærslur sem kastað hefur verið fram í allri umræðu um ESB að ég gleymi því stundum að svara því fyrir sjálfum mér og öðrum; Hvers vegna vil ég eiginlega að Ísland gangi í Evrópusambandið? Er það eingöngu vegna þess að ég vil sjá Ísland taka upp evruna? Hafa erfiðleikar evrusamstarfsins á síðustu mánuðum einhver áhrif á þær skoðanir mínar? Hvenær, hvernig og ekki síst hvers vegna ákvað ég að gerast evrópusinnaður? Ég held að fæstir muni eftir því augnabliki sem þeir ákvaðu að gerast evrópusinnar. Fyrir marga hefur það kannski verið þegar nágrannaþjóðir okkar fóru að ganga inn í ESB hvert á fætur öðru á 10. áratugnum, fyrir aðra þegar krónan byrjaði að falla í lok árs 2007, en ég kom hinsvegar út á mun dramatískari hátt.

Árið var 2004 og ég var ungur skiptinemi á Ítalíu á vegum AFS að gera mitt besta til að læra tungumálið og drekka (bókstaflega) í mig menninguna á þeim stutta tíma sem ég dvaldi þar. Í aprílmánuði fór ég í mjög eftirminnilega vikudvöl til Siracusa á Sikiley þar sem ég dvaldi ásamt átta félögum mínum frá AFS í góðu yfirlæti í heimavistarskóla á besta stað í borginni. Þarna var fólk frá flestum löndum Evrópu; Danmörku, Þýskalandi, Frakklandi, Belgíu og meira segja stelpa frá Grænlandi, ásamt mér. Einn daginn ráðlögðum við að fara í fornleifagarð sem staðsettur var rétt utan borgarmarkanna, Siracusa hafði verið byggð upp af Forn-Grikkjum á 7. öld fyrir Krist og því var víst mjög margt áhugavert að skoða í garðinum. Þetta var heitur vordagur á Sikiley, eyjan skartaði sínu allra fegursta. Það glitti í eldfjallið Etnu við sjóndeildarhringinn sem minnti mig á heimaslóðir þar sem séð úr fjarska var það ekki ósvipað Snæfellsjökli þar sem það reis rúma 3000m upp úr hraunhafinu sem umlykti það. Við gengum þarna inn níu saman ásamt ítölskum vini okkar Luca, tilbúin að njóta dagsins með öðrum túristum sem voru óvenju margir fyrir þennan árstíma samkvæmt heimamanninum.

Þegar við komum að hliðinu beið okkar heljarins röð sem virtist teygja sig nær endalaust í vestur og örvænting greip um okkur þegar það kom á daginn að fjórar rútur af kínverskum ferðamönnum hefðu komið að garðinum rétt á undan okkur. Heimamaðurinn Luca hafði þó ráð undir rifi hverju og kom okkur með lævísi og klækindum í sérstaka röð þar sem við þurftum ekki að greiða inngöngu og þar með komist inn á undan öllum Kínverjunum. Eina skilyrðið? Að vera með vegabréf frá landi innan Evrópusambandsins. Ég horfði á þau öll ganga inn hvert á fætur öðru, veifandi vegabréfinu sínu eða ökuskírteini til þess að sanna þjóðerni sitt og ganga frjáls og stolt á táknrænan hátt hvert á fætur öðru  inn í fornleifagarðinn (sem í minningunni virðist alveg hundrað sinnum merkilegri en hann var í raun og veru) án þess að borga. Dæmigert!  Meira segja grænlenska stelpan fékk að fara inn með danska vegabréfið sem mig grunar reyndar að hafi verið illa fengið.

Loks var komið að mér og ég gleymi því aldrei hvernig mér leið þegar ég sýndi skömmustulega bláa íslenska vegabréfið mitt og hrokafulli ítalski fornleifagarðsöryggisvörðurinn leit yfir lista af fánum sem hann var með á blaði fyrir framan sig og hristi svo hausinn glottandi út í annað. Ég þurfti að fara aftast í röðina – á eftir Kínverjunum sem flest virtust í mestu vandræðum með að greina á milli hvort seðlarnir þeirra væru evrur eða yuan. Í góðmennsku minni (lesist; meðvirkni) sagði ég föruneytinu að fara inn og njóta fornleifanna án mín, ég myndi fara í röðina og koma að vörmu spori. Röðin kom svo að mér tveim tímum síðar og á þeim tíma hafði ég í sjálfhverfni náð að bölva nánast öllum íslenskum stjórnmálamönnum sem ég þekkti fyrir að hafa ekki hundskast til þess að ganga í Evrópusambandið fyrr; bara svo fáninn okkar hefði getað verið á blaðinu hjá hrokafulla öryggisverðinum, bara svo ég hefði getað komist inn í garðinn með vinum mínum, bara svo ég hefði ekki þurft að borga 15 evrur inn auk þess að bíða í röð í nærri því tvo tíma með öllum öðrum túristunum frá löndum utan ESB á þessum heita vordegi á Sikiley árið 2004.

Sem betur fer hef ég þó þroskast eitthvað síðan þá og með árunum myndað með sjálfum mér haldbærari skoðanir á Evrópusambandinu og kynnt mér það betur en ég hafði gert þennan dag í Siracusa fyrir 7 árum síðan. Í dag vil ég sjá aðildarviðræðurnar kláraðar og fá að vita hvað út úr þeim kemur (kallast ég þá ekki nýyrðinu – viðræðusinni?), ég tel það bráðnauðsynlegt ekki síst til þess að geta leitt málið til lykta og fengið lýðræðislega og vonandi málefnalega niðurstöðu í þetta mál sem skipt hefur þjóðinni í tvær fylkingar allt of lengi. Ég hef orð Þorsteins Erlingssonar að öndvegi til að bergmála þá skoðun mína;

„Því sá sem hræðist fjallið

og einatt aftur snýr

fær aldrei leyst þá gátu

hvað hinum megin býr“ (Þ.E.)

Þeir sem eru hlynntir aðildarviðræðum og vilja sjá samninginn áður en þeir svo vega og meta kosti hans og galla eiga ekki að þurfa endalaust að verja það hvort landbúnaður á Íslandi muni lifa af og hvernig landhelgi okkar verði í raun virt vegna grundvallarreglu ESB um sögulega veiðireynslu. Hvað þá að fræða efasemdarfólk og mis upplýsta ættingja um þá staðreynd að auðlindir hvers ríkis innan ESB eru á forræði þess sjálfs og orka okkar og aðrar mikilvægar auðlindir verða áfram í okkar eigu. Það er varnarskák.

Við eigum að segja frá okkar sannfæringu, tala um það sem við teljum Ísland geta sótt og grætt á þessu samstarfi lýðræðisþjóða í Evrópu; hvort sem það sé eitthvað þjóðhagslega mikilvægt líkt og sterkari fjárfestingarmöguleikar fyrir fyrirtæki, lægri skólagjöld fyrir stúdenta, pólitískt akkeri í hnattvæddum heimi, aukin fagmennska í stjórnsýslunni, lægri vexti til húsnæðiskaupa og traustari gjaldmiðill (!) eða þá eitthvað sjálfhverft og smávægilegt eins og frían aðgang í fornleifagarð einhvers staðar í Suður-Evrópu.

Ég vona því að umræðan fari að snúast meira um það sem við getum sótt og höfum fram að færa til samstarfsins í stað þess sem við gætum misst, slíkt leysist þegar samningaviðræðurnar klárast og niðurstöðurnar verða kynntar fyrir þjóðinni.

Í dag hefði amma mín orðið 105 ára og í tilefni af því er fjölskylduboð hjá ættinni, eflaust verður rætt talsvert um Evrópusambandið eins og í svo mörgum fjölskyldumboðum útum allt land þessi misserin. Ef spurður um mínar ástæður fyrir að vera hlynntur ESB mun ég að sjálfsögðu halda áfram að segja frá vorhitanum í röðinni með Kínverjunum á Sikiley – bara af því það er svo fjári góð saga.