Í grein dagsins fjallar Stefán Rafn, formaður Ungra Evrópusinna um hvernig við getum haft áhrif á Evrópusambandið og mikilvægi lýðræðislegrar þáttöku fólks jafnt innan landsteinanna sem og innan Evrópusambandsins.

Hvernig þú og ég getum haft áhrif á Evrópusambandið

Heilbrigði lýðræðislegs samfélags getur einungis verið mælt með þáttöku, áhuga og virkni einstaklinganna sem það manna. Evrópusambandið, líkt og Ísland, er samfélag sem byggir á lýðræðislegu samtali valdhafa og almennings. Samtalið er oft hrykkjótt líkt og hér heima en vettvangur fyrir samtalið er til staðar.

Fyrsta setningin í fyrstu málsgrein þessarrar greinar er vísun í orð franska félagsvísindamannsins Alexis De Toqeville sem rannsakaði Bandarísk stjórnmál og lýðræði. En en líkt og orð hans gefa til kynna eru lýðræðisleg samfélög og verða alltaf jafn góð og fólkið sem kýs að taka þátt í þeim. Þetta á líka við um Evrópusambandið.

Sjálfhverf umræðuhefð

Tilfinning mín er sú að umræða um Evrópusambandið hér á Íslandi sé mun sjálfhverfari en þekkist annarsstaðar. Umræðan einkennist af okkar eigin hagsmunamálum, sjávarútveg og landbúnaði, og hvernig við gætum hagnast sem mest af samstarfi við Evrópusambandið. Á sama tíma og ég legg áherslu á að standa vörð um hagsmuni okkar gagnvart Evrópusambandinu langar mig til að fordæma umræðuhefð á Íslandi um Evrópusambandið. Ósk mín er að við íslendingar gerumst virkari þátttakendur í umræðu um þróun Evrópusambandsins. Ekki bara aðild íslands að sambandinu.

Sjálfur hef ég tekið virkan þátt á alþjóðlegum ráðstefnum og fundum höldnum af Evrópskum hagsmunasamtökum. Þar má nefna Evrópusamtök framhaldsskólanema (Obessu) og Ungmennasamtök Evrópu (European Youth Forum). Kynni mín af starfsemi þessara samtaka og af þeim færu jafnöldrum mínum sem starfa þar hafa vakið upp grunsemdir um að við á íslandi séum töluvert á eftir í umræðuhefð um eðli Evrópusambandsins. Krakkarnir sem ég hef unnið með hafa risið ofar þröngum þjóðarhagsmunum og einblína mun frekar á hagsmuni einstaklinga þvert á landamæri. Umræðan er á öndverðu meiði hér á Íslandi.

Við getum haft áhrif

Á meðan ég fordæmi umræðuhefðina ítreka ég jafnframt mikilvægi lýðræðislegrar þátttöku. Líkt og með umræðuhefðina virðist íslenskt samfélag einskorðast við eigin landsteina. Lýðræðisleg þátttaka innan Evrópusambandsins er möguleg og hún er aðgengilegari en marga grunar.

Mín persónulega reynsla hefur gefið góðan gaum. Ýmisleg íslensk félagasamtök taka virkan þátt í alþjóðastarfi og hafa bein áhrif á stefnu Evrópusambandsins. Fyrr á árinu tók ég þátt í ráðstefnu í Búdapest þar sem ungt fólk fékk að ræða við evrópska stjórnmálamenn um atvinnuleysi ungs fólks í Evrópu og hvaða skref framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gæti tekið til að mæta þeim vanda. Niðurstöður samræðunnar voru svo sendar framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til umræðu.

Ég hvet sérstaklega ungt fólk til að kynna sér starfsemi æskulýðsfélaga, stúdentahreyfinga, verkalýðsfélaga og stjórnmálaflokka til að kanna hvort ekki sé möguleiki á að taka þátt í alþjóðlegu lýðræðislegu samtali.

Áhrif ungs fólks í hinu hnattræna samfélagi á sér engin takmörk, en við íslendingar þurfum að læra að beisla þá möguleika. Evrópusambandið verður aldrei betra eða verra en fólkið sem tekur þátt í því. Lýðræðisleg ábyrgð er okkar megin. Ef við kjósum að sitja hjá erum við að kjósa okkur lélegt samfélag, hvort sem það er sveit okkar land eða álfa.