Vilhjálmur Þorsteinsson, stjórnarformaður CCP, skrifaði áhugaverðan pistil á bloggið sitt í gær, sunnudaginn 19. febrúar, þar sem hann veltir vöngum yfir því hversu langt sé í að Íslendingar geti tekið upp evruna.

Í grein Vilhjálms segir meðal annars:

„Á Íslandi varð tvenns konar hrun árið 2008: Annars vegar hrun skuldsettra spilaborga banka og eignarhaldsfyrirtækja, og hins vegar hrun krónunnar.

Þessi tvö hrun tengjast vissulega á ýmsa lund, en þó er það svo, að ef hér hefði verið stöðugur fjölþjóðlegur gjaldmiðill – t.d. evra – hefði aðeins fyrrnefnda hrunið orðið. Þótt bankar, FL Group og Exista hefðu engu að síður farið á hausinn, hefðu lán fólks og fyrirtækja staðið óbreytt, ekkert verðbólguskot orðið, enginn „forsendubrestur“. Vissulega hefði syrt nokkuð í álinn í ríkisfjármálum vegna samdráttar fjármagnstekna og skatttekna af fjármálageiranum, og einhver samdráttur orðið í landsframleiðslu, en búsifjar heimila og skaði á raunhagkerfinu hefðu orðið miklu minni með evru en krónu.“

Þá fjallar Vilhjálmur um þau skilyrði, hin svokölluðu Maastricht skilyrði, sem uppfylla þarf til þess að taka upp evruna. Vilhjálmur reiknar svo út að ef við göngum í ESB árið 2013, getum við tekið upp eruna árið 2016 eða 17:

„Sem sagt: ef við einbeitum okkur að verkefninu og fáum aðild að ESB 2013, þá yrðu árin í ERM II 2014-2015/16, og evruupptaka möguleg 2016 eða 2017. Ávinningur myndi þó birtast heimilum og fyrirtækjum fyrr þar sem væntingar um evruna kæmu inn í gengi krónunnar og vaxtastig.

Mér finnst ávinningurinn svo borðleggjandi, og framtíðarhagsmunirnir svo yfirgnæfandi, að það sé ekki eftir neinu að bíða.  Þessi áætlun liggur fyrir og er klár til umræðu og aðgerða. Þeir sem telja sig hafa betri plön skulda þjóðinni skýr svör um hver þau eru og hvernig þau ganga upp.“

Lesa má alla greinina hér: http://blog.eyjan.is/vthorsteinsson/2012/02/19/hversu-langt-i-evruna/