Grein dagsins á Guðmundur Gunnarsson, fyrrum formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. Í grein sinni fjallar Guðmundur um hvernig hann varð fylgismaður fyrir aðild Íslands að innri markaði Evrópusambandsins, samfara Davíð Oddssyni, gjaldeyrismál og atvinnulífið á Íslandi. Þessa góðu grein má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Ég var í þeim hópi sem vann af hálfu verkalýðshreyfingarinnar að gerð Þjóðarsáttar á árunum 1988 – 1993. Þá voru að eiga sér stað kynslóðaskipti í forystu stéttarfélaganna og sífellt fleiri sáu hversu tilgangslítið var að semja um launahækkanir upp fleiri tugi prósenta nánast árlega. Kaupmátturinn hækkaði ekki í samræmi við baráttuna og lítið gekk í að fá samskonar styttingar á vinnutíma eins og gerst hafði á hinum norðurlandanna.

Samfara þessu vorum við sem að þessum unnu ákafir fylgismenn fyrir aðild Íslands að innri markaði Evrópusambandsins. Til að minna á þau sjónarmið sem menn unnu eftir, má nota þau orð sem Davíð Oddsson skrifaði um þetta leiti í aldamótaskýrslu Sjálfstæðisflokksins :

„Þjóðin hlýtur að setja sér það mark að aldrei aftur þurfi þessi þjóð að hokra undir handafli ofstjórnar og kreppuhugsunarháttar, miðstýringar og mismununar. Líklegt er að smæð þjóðarinnar verði okkur styrkur ásamt með því að við erum að véla við margar hefðbundnar vinaþjóðir. Það er því óheppilegt að borið hefur á því, að Íslendingar séu sjálfir að búa sér til skilyrði og mála skrattann á vegginn og þar með að veikja eigin samningsstöðu er menn mæta með sjálfskapaða annmarka til viðræðna við Evrópusambandið

Þjóðin má síst af öllu ganga að þessu viðfangsefni með þrá um forna innilokun og einangrun, altekin af ótta og kjarkleysi. Hún verður að sýna reisn og styrk og forðast einangrunarþörf og minnimáttarkennd. Til slíkra viðræðna hlýtur þjóðin að ganga sannfærð um það að reyna að ná fram hinu besta, en jafnframt tilbúin til þess að hverfa frá þeirri leiðinni, ef niðurstaðan er ekki þolanleg. Það er skoðun mín að stærsta áskorun okkar á stjórnmálasviðinu á næstu árum sé hvernig við varðveitum stöðu okkar í breytilegum heimi. Við verðum að laga okkur að þeirri staðreynd að meirihluti af viðskiptum okkar er við EB-löndin. Ég hef opinberlega talað fyrir því að við ættum að sækja um aðild. Takmark okkar hlýtur að vera heilbrigt og vaxandi hagkerfi, stöðugur gjaldmiðill og sterkt atvinnulíf einstaklinga.“

Ég var á þessum árum fylgismaður flokks Davíðs og var m.a. varaborgarfulltrúi fyrir þann flokk eitt kjörtímabil. Við sem vorum fótgönguliðar þessara sjónarmiða á þessum árum, töldum okkur í trú um að það myndi vera auðvelt fyrir Íslendinga að taka upp agaðri hætti í viðskiptum og stjórnsýslu og losa okkur undan hinu alsráðandi klíkuveldi og aðferðir gömlu helmingaskiptaflokkanna við einkavæðingu sjávarauðlindarinnar og bankanna. Þar var ofarlega sú birtingarmynd hvernig pólitíska valdið úthlutaði auðæfum í eigu íslensks almennings á fárra hendur. Enn í dag berst þessi valdastétt gegn því að skipt verð um gjaldmiðil. Krónan hentar fyrir skuldlaust efnafólk, hún gerir það reglulega ríkara með stórkostlegum eignatilfærslum sem framkvæmdar eru með gengisfellingum.

Fjölmiðlar eru keyptir og reknir með milljarða tapi til þess að „útskýra!!“ málið. Fluttir eru inn sérvaldir sérfræðingar og keyptir stærstu ráðstefnusalir borgarinnar til þess að boða þetta fagnaðarerindi. Þeir tala eins og líf hafi byrjað á Íslandi 1. nóv. 2008 með öll mælitæki núllstillt. Þeir koma ekki inn á um hversu stóran þátt spilið með krónuna átti í hamförum heimilanna. Þeir fjalla ekki um hvers vegna tugþúsunda íslendingar töpuðu öllu sem þeir áttu, og stóðu þar að auki frammi fyrir ókleifu skuldafjalli. Hvers vegna stendur íslenskur almenningur mun verr eftir efnahagshrunið en t.d. almenningur í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, já og jafnvel á Írlandi? Þar bjó fólk við gjaldmiðil sem bauð ekki upp sömu geggjun og krónan gerir.

Okkur er gert að búa við gjaldmiðil sem er nýttur til þess að hafa af okkur laun og eignir. 12% af launum fara í að greiða vaxtamun milli Íslands og ESB. 30% af tekjum fara í að greiða allan kostnað heimilanna af því umhverfi sem krónan býr okkur, hluti þess rennur þráðbeint í vasa hin efnaða minnihluta, og vitanlega berst hann gegn öllum breytingum. Hann vill geta selt sína vöru í erlendum myntum, en greitt launamönnum í íslenskri krónu og geymt það sem eftir er í erlendum bönkum.

Það er svo annað mál að langtímahorfur íslendinga gætu verið góðar, sama á ekki við um margar aðrar þjóðir. Þær eiga við að etja skuldavanda, lífeyrisvanda og skort á auðlindum. Endurnýjanleg orka er eftirsóttasta vara sem til er. Náttúruauðlindir hafa ekki endilega verið ávísun á ríkidæmi og velgegni. Frekar hið gagnstæða. Þar má benda á Argentínu, Nígeríu og fleiri þjóðir. Hér má benda á hvernig Noregur nýtti sínar auðlindir samanborið við Bretland.

Afleiðing þessa er kyrrstaða og það verður sífellt lengra í að okkur takist að ná stöðugleika í efnahags- og gjaldmiðilsmálum. Öll helstu fyrirtæki landsins hafa hafnað krónunni og hún er líka ástæða þess að þekkingar/hátækniiðnaðurinn er ekki með Ísland inn á blaðinu sem fjárfestingarkost. Sakir þess að eru hverfandi líkur á því að það takist að fjölga störfum á Íslandi í því magni sem þarf til þess að komast upp út úr viðjum Hrunsins. Örgjaldmiðillin króna býður upp á að hægt er að skapa þá geggjun sem hér varð, sem varð til þess að heimilin liggja eftir í valnum og hún er einn stærsti þáttur þess að við náum okkur ekki upp úr táradalnum.

Willem Hendrik Buiter skrifað í apríl 2008 skýrslu um stöðu bankanna ásamt eiginkonu sinni Anne Sibert. Þáverandi ríkisstjórn komst að þeirri niðurstöðu að skýrslan gæti haft of neikvæð áhrif á markaðinn og stakk henni undir stól. Þegar fréttir af skýrslunni fóru að spyrjast út sagði Þorgerður Katrín þáverandi ráðherra í fjölmiðlum niðurstöður Buiters vektu upp spurningar um hvort hann þyrfti á endurmenntun að halda.

Það er harla einkennilegt að upplifa það að sumir virðast hlakka yfir því þessa dagana að langstærsta viðskiptasvæði Íslands sé að fást við erfiðleika vegna spillingar og slakrar efnahagstjórnunar í löndum við Miðjarðarhafið. Buiter flutti erindi hér í síðustu viku og sagði að ef hann væri í sporum íslendingar myndi hann biðja fyrir því að aðalviðskiptasvæði Íslands ESB lifði af ásamt evrunni. Hann hvatti m.a. til almennrar skuldaafskriftar heimilanna þar sem miðað yrði við 70% verðmæti fasteignalána.