Allir þurfa þak yfir höfuðið, það eru jú altæk sannindi. Hér á Íslandi hefur sú hefð skapast að álitið er svo að íbúðarhúsnæði er talið vera lífssparnaður fólks. Menn taka lán, setja inn summu af eigin fé og svo er bara að borga af. Að eiga sína fasteign er talið eðlilegt.

Árið 1996 fluttum ég og konan mín til Svíþjóðar, til framhaldsnáms. Byrjuðum á að leigja, eins og við gerðum á Íslandi, en eftir eitt ár keyptum við svokallaðan búseturétt. Fjölskyldan stækkaði og eftir nokkur ár þurfti að selja og kaupa stærra. Búseturétturinn var seldur á fimmföldu verði vegna hækkandi fasteignaverðs í Svíþjóð og parhús keypt. Í fyrstu var það einnig búseturéttur, en fljótlega komst á samkomulag innan búsetafélagsins að breyta eignarforminu, þannig að hver fjölskylda myndi eignast sína fasteign.

Þau lán sem hvíldu á parhúsinu, voru með vöxtum á bilinu 1-2% og verðbólga var svipuð. Fyrir íbúðareigendur er þetta þægileg staða, við hver mánaðarmót minnkaði lánið og við eignuðumst meira í húsinu eftir því sem á leið. Það heitir ,,jákvæð eignamyndun“ á fagmáli. Við vissum einnig hvernig staða okkar var nákvæmlega við hver mánaðarmót og fram í tímann.

Í júní 2007 fluttum við fjögur svo heim. Parhúsið selt. Við högnuðumst bæði af sölu búseturéttarins í upphafi og parhússins. Þegar upp var staðið var hagnaðurinn c.a. 5 milljónir króna (sem þykir kannski ekki mikið á íslenskan mælikvarða). Þessa peninga og annað sparifé notuðum við til að kaupa fasteign á Íslandi. Að sjálfsögðu tókum við lán.

En hvað hefur gerst á þremur árum? Jú, lán okkar hefur hækkað um nákvæmlega fimm milljónir vegna vaxta og verðtryggingar! Það hefur því ekki tekið íslensku verðtrygginguna nema tæp þrjú ár að éta í sig allt það fé sem við fengum út úr sölu tveggja fasteigna í Svíþjóð! Þetta er svokölluð ,,neikvæð eignamyndun“ á fagmáli.  Í stað þess að eignast í fasteigninni, hefur lánveitandinn eignast sífellt meira í okkur og okkar ráðstöfunartekjum.

Það sér hver heilvita maður að þetta er klikkað kerfi. Þegar ég sá í hvað stefndi á greiðsluseðlunum þá hringdi ég í þáverandi Glitni í einfeldni minni. Ég spurði konuna sem svaraði hvort þetta væri eðlilegt. Hún svaraði: ,,Já, já, þetta er alveg eins og það á að vera,“ og spurði mig svo um vextina á láninu. Ég svaraði; ,,4.5%“ (nafnvextir, svo leggst verðbólga og vertrygging ofan á). ,,Þú ert bara með frábært lán!“ sagði starfsmaður bankans! Nú, er það, svaraði ég og þakkaði fyrir samtalið. Nú hlyti mér að líða miklu betur yfir þessu!

En er þetta fínt? Er það eitthvað fínt að nokkuð sem heitir verðtrygging hlaði auka-milljónum ofan á húsnæðislánin? Hversvegna varð verðtrygging til? Jú, vegna þess að stjórnmálamenn réðu ekki við verðbólgu og efahagsmálin. Hún átti að vera tímabundin aðgerð sem sett var á árið 1979 (s.k. ,,Ólafslög“, sem viðbrögð við óðaverðbólgu. Því má líta á verðtryggingu sem tryggingu stjórnmálamanna og yfirvalda sem ráða ekki við að stjórna efnahag landsins, eða eins og Gylfi Magnússon (þáverandi dósent við H.Í) segir í svari á vísindavef H.Í: ,, Í löndum þar sem gjaldmiðillinn hefur verið stöðugur um langan tíma og verðbólga hefur ekki farið úr böndunum er sjaldgæfara að samið sé um verðtryggingu en í löndum þar sem íbúar hafa reynslu af mikilli og óstöðugri verðbólgu.“

Ísland er eina landið í heiminum sem notar verðtrygging. Hversvegna? Er eitthvað svo algerlega sérstakt við íslensk efahagsmál að við þurfum að hafa verðtryggingu? Getur það verið dugleysi ráðamanna, eða er það eðli íslenska efnahagskerfisins, sem er einskonar ,,innspýtingarhagkerfi“ þar sem annaðhvort allt er brjálað eða ekkert í gangi, vertíð eða ekki vertíð? Verðtrygging gerir einfaldlega viðureign almennings við skuldir ennþá erfiðari og óréttlátari til muna. Og hver er það sem er verðtryggður? Jú, lánveitandinn. Við neytendur/lántakendur höfum jú aðeins eina tryggingu; að lánið hækki!

Í 25. grein Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir orðrétt:,, Allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra.“  Er hægt að skoða íslensku verðtrygginguna í ljósi þessara orða? Það er að minnsta kosti dagljóst að verðtryggingin hefur haft af fjölskyldunni um 5000 krónur á dag,  síðan við keyptum okkar fasteign, eða um 150.000 á mánuði! Þetta á við alla Íslendinga sem eru með vertryggð lán, verðtrygging eykur skuldir þeirra allra. Samt er staða margra annarra mun verri en þetta, því miður.

Getur þetta ekki fallið undir lífskjararýrnun? Fé sem hægt væri að nota með öllum öðrum hætti en að sjá eftir því í gin verðtryggingarinnar. Er ekki mál að linni? Ætla Íslendingar að láta bjóða sér þetta um aldur og ævi?

Ljóst er að núverandi fyrirkomulag verðtryggingar, sem og gjaldmiðilsmála (haftakróna!) gengur ekki til lengdar. Nauðsynlegt er því að skoða aðra valkosti í þeim efnum. Til dæmis upptöku Evru, eða tengingu krónunnar við hana til að byrja með.

Íslenskt efahagslíf, fyrirtæki og fjölskyldur þurfa stöðugleika, en ekki stöðugar sveiflur og óöryggi. Og afnám verðtryggingar er hreint réttlætismál gagnvart lántakendum landsins.

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson. Höfundur er stjórnmálafræðingur og eigandi fasteignar.