Um áramótin tók Írland við formennsku Ráðherraráðsins af Kýpur og munu Írar fara með formennskuna næstu sex mánuðina.

Þetta er í sjöunda sinn sem Írar gegna formennsku í ESB, og á sama tíma fagnar Írland 40 ára aðild að Evrópusambandinu.

Formennskutíð Íra mun leggja áherslu á stöðugleika, atvinnumál og hagvöxt í Evrópu.

Hér má finna heimasíðu írsku formennskunnar, en þar er hægt að fylgjast með fréttum og lesa um þau verkefni sem Írar munu stýra á næstu mánuðum: http://www.eu2013.ie/

Hvað er Ráðherraráð ESB?

Ráðherraráðið (e. Council of the European Union) er skipað ráðherrum aðildarríkjanna. Ráðherraráðið fer með löggjafarvald í ESB ásamt Evrópuþinginu, undirritar samninga við önnur ríki og samtök, samhæfir stefnu og aðgerðir aðildarríkjanna í mörgum málaflokkum og hefur ákveðið framkvæmdavald. Hvert aðildarríkjanna á einn fulltrúa í ráðherraráðinu, óháð íbúafjölda. Samsetning ráðsins fer eftir málaflokkum. Þannig funda landbúnaðarráðherrar um landbúnaðarmál, umhverfismálaráðherrar um umhverfismál o.s.frv.