jonasolveig_litil

Enn skrifar Jóna Sólveig Elínardóttir athyglisverða grein um Evrópumálin í Fréttablaðið.

„Evrópustefna íslenskra stjórnvalda leggur ofuráherslu á aukin áhrif á mótun evrópsk-íslenskrar löggjafar á grundvelli EES. Stefnan gengur hins vegar ekki upp.

Hávær krafa stjórnarliða um niðurskurð í utanríkisþjónustunni gengur þvert gegn Evrópustefnuni. Þversögnin verður þeim mun vandræðalegri þegar horft er til þess hversu illa Íslandi gengur að innleiða EES löggjöf.

Þar stöndum við okkur verst EES ríkjanna, svo illa raunar að miklu munar á okkur og Norðmönnum sem fylgja í kjölfarið. Vandamálið kristallast í alltof reglulegum kvörtunum frá eftirlitsstofnun EFTA en auk þess enda málin of oft í mannaflsfrekum og rándýrum málaferlum fyrir EFTA dómstólnum. Þetta er grafalvarlegt fyrir íslenska ríkisborgara og fyrirtæki sem búa ekki við sambærilega löggjöf og ríkisborgarar hinna EES ríkjanna auk þess sem þetta er mjög kostnaðarsamt fyrir skattgreiðendur.

Starfsmenn sendiráðs Íslands í Brussel eru alls 15, þ.m.t. bílstjóri, þrír móttökuritarar auk bókhaldara sem hafa enga aðkomu að framkvæmd EES-samningsins. Einungis þrír starfsmenn sendiráðsins eru fulltrúar íslenskra fagráðuneyta. Til samanburðar starfa rúmlega 50 manns í sendiráði Noregs í Brussel en þar af starfa um 30 í EES tengdum málum. Þetta skiptir máli þegar við ræðum EES-samninginn því þótt við séum fámennari en Norðmenn lútum við sömu EES löggjöf, óháð stærð þjóðanna.

Sendiráðið í Brussel gegnir lykilhlutverki í rekstri EES og allri hagsmunagæslu íslenskra stjórnvalda á Evrópuvettvangi. Ef hvert íslenskt fagráðuneyti ætti að hafa að lágmarki einn fulltrúa í sendiráðinu væru þeir a.m.k. átta. Í dag eru hins vegar aðeins fulltrúar frá menntamálaráðuneytinu, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, og fjármálaráðuneytinu, en þeirra málaflokkar ná ekki yfir nærri því allt svið EES samningsins. 

Stjórnvöld eru í sjálfheldu í Evrópumálum. Sá mannafli sem á að vinna að því að auka áhrif okkar á íslensk-evrópska löggjöf, er fastur í vinnu við úrbætur á alvarlegum innleiðingarhalla Íslands. Þá eru engar vísbendingar um eflingu utanríkisþjónustunnar í samræmi við ríka áherslu stjórnvalda á aukið vægi EES í hagsmunagæslu landsins.

En er einhver leið útúr þessum ógöngum? Jú, stjórnvöld gætu sýnt vilja í verki með því að styrkja utanríkisþjónustuna í stað þess að veikja hana. Aðeins þannig er hægt að taka sannfærandi atrennu að þeim metnaðarfullu markmiðum sem Evrópustefna íslenskra stjórnvalda leggur upp með og aðeins þannig getum við kannað til hlítar hvort að efld hagsmunagæsla á grundvelli EES skilar fullnægjandi árangri fyrir Ísland.“

Greinin á visir.is