Fimmtudaginn 27. október ætlar ætlar Gísli Hjálmtýsson fjárfestir og fyrrverandi deildarstjóri tölvunarfræðideildar hjá Háskólanum í Reykjavík að fjalla um tækifærin sem felast í aðild að ESB á opnum fundir í Skipholti 50a klukkan 12.00.

Um efni fundarins:

Ísland er ein ríkasta þjóð heims. Frá því að vera ein fátækasta þjóð Evrópu í byrjun síðari heimstyrjaldarinnar hefur okkur tekist á um 60 árum að byggja upp norrænt velferðarsamfélag þar sem lífskjör eru með því besta sem gerist í heiminum. Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 er um margt deilt í okkar samfélagi, og hart vegið að þeirri þjónustu sem leggur grunninn að velferðarsamfélaginu. En velferðarsamfélagið krefst sterks hagvaxtar í íslenska hagkerfinu til lengri tíma, og hárrar arðsemi fjárfestinga og fyrirtækja.

Ný atvinnutækifæri og nýjar atvinnugreinar eru nauðsynlegar til að ná af stað hagvexti. Ísland þarf á næstu tíu árum um þrjátíu þúsund ný störf, meira en helming þeirra fyrir fólk með háskólamenntun eða aðra sérhæfingu. Takist okkur ekki að búa til nægileg atvinnutækifæri á sambærilegum kjörum og best gerist í löndunum í kringum okkur, eigum við á hættu að heil kynslóð ungs fólks yfirgefi Ísland og byggi sér framtíð annars staðar.

Í þessu erindi skoðum við hvar við stöndum eftir hrunið, hvering þróun hagvaxtar og vinnumarkaðar á Íslandi skilgreinir framtíðar hagsmuni þjóðarinnar, og hvering aðild að Evrópusambandinu skapar aukin tækifæri fyrir Íslendinga.

Fundastjóri verður Freyja Steingrímsdóttir, nýkjörinn varaformaður Ungra Evrópusinna.

Gísli Hjálmtýsson rekur Thule Investments sem fjárfestir í hraðvaxandi sprotafyrirtækjum. Þar áður var hann deildarforseti tölvunarfræðideildar í Háskólanum í Reykjavík. Gísli starfaði um árabil við rannsóknir á netkerfum og netþjónustu, meðal annars hjá AT&T Bell Laboratories, ásamt því að kenna við Columbia University og Háskóla Íslands. Gísli er með BS gráðu í hagnýtri stærðfræði og tölvunarfræði frá University of Rochester (NY) og doktorsgráðufrá University of California, Santa Barbara.