Endurmenntun Háskóla Íslands og Evrópustofa standa fyrir námskeiðinu Ísland og Evrópa: Samband á tímamótum í nóvember.

Farið verður yfir Evrópumálin á aðgengilegan og áhugaverðan hátt út frá sjónarhóli Íslands. Námskeiðið skiptist í þrjá hluta og er kennt í þrennu lagi.

Í fyrsta hluta er fjallað um Evrópusambandið sjálft, sögu þess og helstu stofnanir og hvernig ákvarðanir eru teknar innan sambandsins. Þá er staða smáríkja innan sambandsins sérstaklega skoðuð og hvernig aðkoma Íslands yrði að stofnunum og ákvarðanaferlinu innan sambandsins.

Í öðrum hluta er fjallað um aðildarumsókn Íslands og samningaviðræðurnar og hvernig það ferli gengur fyrir sig. Þá er farið yfir samninga annarra ríkja og farið yfir hvernig það ferli hefur gengið fyrir sig.

Í þriðja og síðasta hluta námskeiðsins er fjallað um skuldakreppuna í Evrópu og þau úrræði sem gripið hefur verið til á vettvangi ESB til að bregðast við henni. Þá verður farið yfir hvaða afleiðingar hún hefur fyrir framtíð sambandsins, myntbandalagsins og aðildarumsókn Íslands.

Á námskeiðinu er m.a. fjallað um:

• Evrópusambandið og helstu stofnanir þess.
• Hvernig ákvarðanir eru teknar innan Evrópusambandsins.
• Aðildarumsókn Íslands að ESB og samningaviðræðurnar sem nú standa yfir.
• Skuldakreppuna í Evrópu og hverjar afleiðingar hennar gætu orðið fyrir framtíð ESB og Íslands.

Þátttökugjald er 3000 kr. og er opið öllum þeim sem hafa áhuga á viðfangsefninu. Kennt verður miðvikudagana 14., 21. og 28. nóvember.

Nánar um námskeiðið hér:  http://www.endurmenntun.is/Namsframbod/Namskeid/Personuleghaefni/Nanarumnamskeid/283H12