Samkvæmt nýrri úttekt sem Hagstofa Íslands gerði fyrir Já Ísland eiga Íslendingar í lang mestum viðskiptum við ríki Evrópusambandsins. Á síðasta ári var 70,5% af útflutningi beint til ESB ríkjanna og þarf af um 50% til ríkja sem nota evru.

Að sama skapi var innflutningur frá ESB ríkjunum 56,2% af heildar innflutningi hingað til lands, þar af 27% frá ríkjum sem nota evru.

Séu þessar tölur bornar saman við þau lönd sem mikið hafa verið í umræðunni í tengslum við einhliða eða tvíhliða upptöku á annarri mynt kemur í ljós gífurlegur munur.

Evran er sú mynt sem mest er notuð í viðskiptum á Íslandi.  Kandadadollar gæti einna síst talist miklvæg viðskiptamynt, þar sem einungis 1,3% útflutnings og 1,5% innflutnings er við Kanada. Hluti þeirra viðskipta eru ennfremur í bandaríkjadal eða evru.

Það er þó ekki meginatriðið. Einhliða upptaka hvaða gjaldmiðils sem er er óskynsamlegri en aðild að myntbandalagi við þær þjóðir sem stærstur hluti viðskipta okkar er við.
Reynsla Íslands af fljótandi krónu er slæm og auðvelt að sjá skýran ávinning í fastbindingu gengis krónunnar. Ef sú binding er ekki trúverðug er hún þó engu skárri en engin. Trúverðugasta bindingin er fólgin í aðild að myntbandalagi.

Að sumra mati er einhliða binding eða upptaka einhverrar stöðugrar myntar næst besti kosturinn. Einhliða binding er þó alls ekki jafn sterk skuldbinding og aðild að myntbandalagi. Það er mun auðveldara að yfirgefa einhliða upptöku en að yfirgefa myntbandalag. Áhrif á innlenda vexti til lækkunnar yrðu því alls ekki jafn mikil og með aðild að myntbandalagi.

Einhliða upptaka er einnig kostnaðarsamari. Seðla og mynt þyrfti að kaupa fullu verði fyrir annan gjaldeyri. Ekki dugar gjaldmiðillinn sem taka á úr umferð. Sömuleiðis verður þjóðin af myntsláttuhagnaði sem skapast vegna vaxtamunar á peningum og lánsfé.

Engin þjóð, svo vitað sé, er tilbúin að taka að sér hlutverk lánveitanda til þrautarvara ef við kynnum að taka mynt þeirra upp sem okkar eigin. Íslenskt fjármálakerfi gæti því staðið á bersvæði skelli önnur lausafjárkreppa á. Öðru máli gegnir um upptöku evrunnar í gegnum aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópusambandsins. Við þá aðild yrði íslenskum bönkum tryggð lausafjáraðstoð, svo framarlega að þeir séu greiðsluhæfir (e. solvent). Íslendingar þyrftu ekki að kaupa nýja mynt fullu verði, heldur yrði núgildandi krónum skipt fyrir evrur á langtíma jafnvægisgengi. Íslendingar fengju sanngjarna hlutdeild í myntsláttuhagnaði evrunnar. Síðast en ekki síst myndu vextir aðlagast að vaxtastigi á evrusvæðinu, að teknu tilliti til gjaldþrotaáhættu.