Joe Borg ásamt Jóni Steindóri og Paal Frisvold

Joe Borg ásamt Jóni Steindóri og Paal Frisvold

Fjöldi fólks var mætt til að hlýða á fyrirlestur Joe Borg fyrrverandi utanríkisráðherra Möltu og fyrrverandi yfirmanni sjávarútvegsmála hjá ESB, í Háskólanum í Reykjavík í dag, laugardag.  Fundurinn sem var samstarfsverkefni norsku Evrópusamtakanna og Sterkara Íslands var afar áhugaverður. Enda ljóst að það er margt sem Íslendingar geta lært af reynslu Möltu eins og að Íslendingar hafa ekkert að óttast í samningaviðræðum við ESB, eins og fram kom í framsögu Joe Borg.

Fram kom á fundinum að almenningur á Möltu hafi verið efins um aðild og að landið hafi óskaði eftir og fékk 76 sérlausnir (e. special arrangements). Flestar voru þær í landbúnaði eða 31, tíu í umhverfismálum.

Maltverjar gengu svo í Evrópusambandið árið 2004 og eru þeir nú fámennasta ríki sambandsins með 400 þúsund íbúa. Eftir harða kosningabaráttu þar sem aðild var samþykkt með 53 prósentum atkvæða hafa Maltverjar almennt verið ánægðir með aðildina í skoðanakönnunum.  Í sjávarútvegsmálum fengu Maltverjar einnig í gegn varanleg ákvæði, meðal annars varðandi fiskveiðar. Til að koma í veg fyrir ofveiði, fengum Maltverjar að takmarka fjölda veiðileyfa innan 25 mílna. Þannig fengu þeir sem þegar stunduðu veiðar innan svæðisins leyfi og aðrir sem síðar koma eru háðir hámarksfjölda.

Borg lagði áherslu á að lausn Malverja í sjávarútvegi hefði tekið mið af aðstæðum á Möltu og að Íslendingar yrðu að finna sínar eigin lausnir í samningaviðræðum við ESB.  Hann sagðist ekki sjá neitt því til fyrirstöðu að Íslendingar nái viðunandi samningum í sjávarútvegsmálum með því að benda á það í hverju sérstaða þeirra liggi og lögð sé áhersla á mikilvægi sjávarútvegs á Íslandi.

Viðræðunefnd Íslendinga yrði að gæta þess að vera ekki of einstrengingsleg og leggja áherslu á gæði en ekki magn þegar kæmi að sérlausnum. Með útsjónarsemi og góðum vilja sé hægt að finna lausn sem báðir aðilar geta sætt sig við.

Sérlausnir Maltverja sneru einkum að aðlögunarfrestum, en þeir fengu einnig varanlegar undanþágur á nokkrum sviðum, m.a. í sjávarútvegi og fiskveiðum. Borg sagði að þrátt fyrir að landbúnaður og sjávarútvegur væru aðeins lítill hluti efnahagslífsins á Möltu hefðu Malverjar beitt sér af alefli fyrir þessar greinar og fengið margar sérlausnir, einkum í landbúnaði.

Evrópumenn gætu aftur á móti lært af Íslendingum hvernig stjórna ætti fiskveiðum. Jafnframt væri fengur að Íslendingum sem hefðu sama menningarbakgrunn og væru landfræðilega hluti af Evrópu. Ekki væri ástæða til þess að óttast að ekki fyndist lausn á fiskveiðimálunum. Breytingarnar yrðu líklega mun minni en íslendingar töluðu um. Líklegar væri að Evrópusambandið færðist nær Íslendingum.

Malta hefði með aðild fengið bein áhrif á stefnu sambandsins með því að vera fullgildur þátttakandi í stofnunum og þinginu. Þar væri ekki hlustað á fulltrúa ríkjanna eftir stærð landa heldur því hve góð rök þeir færðu fram.