Ég lendi býsna oft í umræðum ágæti þess að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Undantekningalítið fæ ég það sem mótrök gegn máli mínu að evran sé nú alls ekki að virka í mörgum þeim löndum sem nota evru og atvinnuleysi þar sé mikið. ,,Sjáðu ástandið t.d. á Grikklandi, Spáni og Írlandi” heyri ég oft og leiddar eru að því líkur að erfiðleikar í þessum löndum séu evrunni að kenna. Venjulega tekst engum að útskýra fyrir mér hvernig evran er upphaf og endi allra vandamála í þessum löndum enda er það auðvitað ekkert þannig. Vandinn í þessum ríkjum liggur auðvitað í því að þar hafa menn ekki hagað sínum málum með tilliti til þess að peningastefna virkar illa sem hagstjórnartæki. Þá er vinnumarkaðslöggjöf gjarnan vel til þess fallin að halda atvinnuleysi háu, einkum hjá ungu fólki. Að baki þessum orðum ónytsemi evrunnar liggur auðvitað sú hugmynd að sjálfstæð mynt og peningastefna bjargi öllu (svona eins og krónan er bjarga okkur núna – eða þannig).

En segjum nú að það sé rétt að evran sé upphaf og endir erfiðleika í t.d. Grikklandi. Má þá ekki draga þá ályktun að skynsamlegasta leiðin út úr erfiðleikum þeirra væri taka upp nýja mynt. Þessi mynt gæti þá fallið hressilega og bætt samkeppnistöðu landsins sem er auðvitað ekkert annað launalækkun íbúa landsins sem aftur gæti til skamms tíma dregið úr atvinnuleysi. Samkvæmt þessu, og þeirrar staðreyndar að evran er að orsaka erfiðleikana í Grikklandi, blasir við sú augljósa lausn að taka einfaldlega upp íslensku krónuna. Það gæti ennfremur verið heppileg leið fyrir okkur að skipta út evrum Grikkja fyrir krónur – það myndi styrkja gjaldeyrisvaraforðann og auðvelda afnám gjaldeyrishöfta. Grikkir myndu þannig kaupa nýjan gjaldmiðil af okkur leysa þeirra helstu vandamál. Við gætum jafnvel látið gamlan seðlabankastjóra fylgja með í kaupbæti – við eigum nokkra sem við megum alveg missa.

Ég leyfi mér hins vegar að fullyrða að þrátt fyrir erfiðleika í Grikklandi myndu þeir tæpast ganga þessu tilboði. Í besta falli væri það heimskulegt en í versta falli auka mjög á þann efnahagsvanda sem þeir glíma við. Skuldir Grikkja í evrum munu ekkert minnka og geta þeirra til að til að greiða þær niður munu heldur ekkert aukast.Grunnvandi þeirra mun ekkert breytast nema ofan í efnahagskreppuna myndu þeir fá gjaldeyriskreppu en hugsanlega gæti atvinnuleysi til skamms tíma minnkað. Fjármögnunarvandi ríkissjóðs yrði líklega meiri, fjármagnskostnaður heimila og fyrirtækja gæti aukist þar sem á þá myndi leggjast sérstakt krónuálag. Stuðningur af hálfu Seðlabanka Evrópu yrði einnig úr sögunni. Verra er að það traust sem umheimurinn hafði á Grikklandi myndi líklega minnka – eitthvað sem þeir mega alls ekki við í miðri kreppunni. Segjast verður alveg eins og er að upptaka krónu á Grikklandi er alls ekki skynsamleg fyrir þá.

Líklega er það álíka gáfulegt fyrir Grikki að taka upp íslenska krónu eins og fyrir okkur að ætla að krónan sé sú mynt sem mun þjóna hagsmunum okkar til lengdar.

Bjarni Már Gylfason