Í grein dagsins fjallar Valborg Ösp Á. Waren, stjórnmálafræðingur, um áhrifin sem innganga í Evrópusambandið hefur á landsbyggðina og tekur Finnland sem dæmi. Hér að neðan má lesa greinina.

Sem ákaflega stolt landsbyggðartútta, hef ég sérstakan áhuga á málefnum landsbyggðarinnar og áhrifin sem innganga í Evrópusambandið gæti mögulega haft þar á. Margir hafa haldið því fram að sveitarfélögin hér á landi munu hafa lítil áhrif á alla stefnumótun í málefnum sem varðar þau og myndu þurfa að taka þegjandi og hljóðalaust við öllum reglugerðum ESB. Hræðsluáróðurinn hefur verið mikill og vilja sumir meina að landsbyggðin muni hreinlega leggjast í eyði.

Sannleikurinn er hins vegar sá að Evrópusambandið hefur viðamikla byggðastefnu sem meðal annars hefur það að markmiði að styðja við uppbyggingu og atvinnustarfssemi á landsbyggðinni. Það er áhugavert að skoða Finnland í þessu samhengi en landið hefur notið það fjármagn sem því hefur staðið til boða til þess að styrkja landsbyggðina og sérstaklega þau svæði sem eru hvað harðbýlust.

Samkvæmt tölum frá Evrópusambandinu hafa verið búin til 14.600 ný störf í Finnlandi á síðustu tveimur styrkjatímabilum byggðastefnuninnar og 2850 ný fyrirtæki sett á stofn. Samgöngur hafa verið bættar til muna og þá sérstaklega í dreifbýlum landshlutum og svo ferjusamgöngur á milli hinna fjölmörgu eyja sem liggja að ströndum landsins. Einnig hefur menntakerfi Finnlands verið styrkt til muna og áhersla lögð á að auka sérþekkingu fólks. (Framkvæmdastjórn ESB, EuropeanCohesionPolicy in Finland 2007-13.) Það leikur lítill vafi á því að Finnland hefur notið góðs af byggðastefnu Evrópusambandsins og hafa fjármunir verið nýttir á skynsaman hátt til þess að byggja upp innviði landsins og auka samkeppnishæfni allra landshluta. Sjálfstæði sveitarfélaganna hefur verið aukið mikið og þau hafa fengið þann möguleika á því að koma sér á framfæri á alþjóðavettvangi.

Með inngöngu í ESB mun samstarf íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélaga í Evrópu aukast en með inngöngu munu fulltrúar sveitarfélaga fá sæti í svokallaðri Héraðanefnd sem heyrir beint undir Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Það þýðir að sveitarfélög munu geta haft áhrif á stefnumótun strax á frumstigum.

Nálægðarregla ESB gerir það að verkum að vald færist í auknu mæli frá ríkinu til sveitarfélaga og því mun landsbyggðin hafa meira um byggðamál og þróun í sínum landsfjórðungi að segja.

Innganga í Evrópusambandið mun opna marga möguleika fyrir landsbyggðina til þess að styrkja sig og efla og því er nauðsynlegt að aðildarviðræður Íslands og ESB verði kláraðar. Við eigum skilið að fá að kjósa um framtíð landsins og við eigum skilið að fá að sjá hvað okkur Íslendingum stendur til boða.