„Það liggur ljóst fyrir að gangi Ísland í Evrópusambandið mun það deila fleiri þáttum fullveldis síns með hinum 27 aðildarríkjunum en það gerir nú með EES-samningnum. Hins vegar verður að hafa í huga að færa má sterk rök að því að þrátt fyrir þetta styrkist fullveldið vegna þess að við aðild fær Ísland fulla aðild að öllum þeim stofnunum sem taka ákvarðanir.“

Þetta er hluti af svari fulltrúa Sterkara Íslands við spurningunni „Glatar Ísland fullveldinu með aðild að ESB?“ á nýrri vefsíðu, www.kannski.is, sem hefur að geyma svör fylgjenda og andstæðinga ESB við ýmsum lykilspurningum er snerta hugsanlega aðild Íslands að sambandinu.

Markmið vefsins er að auðvelda fólki að taka upplýsta afstöðu til aðildar og er lögð áhersla á að vefurinn sé óháður og hlutlaus vettvangur til að miðla upplýsingum um kosti og galla aðildar. Öllum er frjálst að senda inn spurningar á  www.kannski.is og munu ritstjórar vefsins, þeir Arnar Ólafsson og Elvar Örn Arason, leita eftir svörum hjá fulltrúum JÁ- og NEI-hreyfinganna.