Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra fundaði í dag, þann 8. nóvember, með Herman Van Rompuy, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, í Brussel.

Í kjölfarið gaf Rompuy frá sér yfirlýsingu þar sem hann lýsti ánægju sinni með fundinn með Jóhönnu og fagnaði því góða ferli sem aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins væru í.

Þá sagði Rompuy að ríkisstjórn Íslands hefði sýnt aðildarferlinu mikla skuldbindingu og nefndi hann þá staðreynd að meirihluti íslensku þjóðarinnar vilji klára aðildarviðræðurnar, og sagði það mikilvægt fyrir stækkunarferlið.

Loks sagði Rompuy að hann og Jóhanna hefðu rætt efnahagsástandið í Evrópu, hann hefði upplýst hana um þær aðgerðir sem Evrópusambandið stæði nú í, og fagnaði þeim aðgerðum sem Ísland hefði tekið þátt í til þess að bæta efanahagsástandið hérlendis.