Rætt var um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu á Alþingi í dag. Það var Vigdís Hauksdóttir sem opnaði umræðuna vegna nýrrar skoðanakönnunar sem Heimssýn stóð fyrir. Minntist Vigdís á þingsályktunartillögu sem liggur fyrir utanríkismálanefnd um að þjóðaratkvæðagreiðslu skuli halda um hvort halda eigi aðildarviðræðum áfram.

Þá sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra: „„Ég treysti þjóðinni til þess að meta það hvort að hún vilji þá samninga sem að við komum með þegar samingaferlinu í Brussel er lokið. Ég tel að það sé þjóðin sjálf sem eigi að taka afstöðu til þess hvort hún telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið innan ESB, með þá samninga sem við komum með vonandi fyrr eða síðar.“

Bætti Jóhanna við að það séu ekki stjórnmálaflokkarnir á Alþingi sem eiga að taka ákvörðun fyrir þjóðina, heldur eigi hún að fá að taka afstöðu til málsins.