Sif Sigmarsdóttir, London, jólÁ aðventunni verður hér á vefnum okkar, jaisland.is  jólaleg nýjung. Viðtöl við Íslendinga sem eru búsettir í ESB ríkjunum þar sem þau deila með okkur hvernig jólin fara fram í þeirra heimalandi og hvernig íslensku jólasiðirnir fléttast inn í jólin þeirra.

Sif Sigmarsdóttir rithöfundur er fyrsti viðmælandinn okkar en hún hefur verið búsett í Bretlandi í tíu ár.  Síðustu fimm árin hefur hún alið manninn í Lundúnum þar sem einn ósvífinn jólasveinn hefur vakið reiði almennings en hann reynir í sjónvarpsauglýsingu að sannfæra foreldra til að taka vaxtalaus lán til að geta eytt um efni fram um jólin.  En breskir siðir eins og Mulled wine og Borough markaðurinn  er það sem hún hlakkar mest til á aðventunni, svo og að fá sér ristaðar kartöflur sem ætti samkvæmt Sif að fá Nóbelsverðlaun í flokki matar ef slík verðlaun væru veitt.  En það er auðvitað Helga Möller sem kemur henni í jólaskapið.

Fer alltaf á Borough Market og drekkur Mulled Wine

„Mulled wine er ómissandi drykkur hjá Bretum í aðdraganda jólanna“ segir Sif aðspurð um hvað það er sem hana hlakkar mest til þegar jólin hellast yfir bresku þjóðina.  Hún útskýrir þetta frekar ,,um er að ræða rauðvín sem hefur verið hitað í potti og blandað sykri og kryddum á borð við kanil og negul. Ég hlakka ávallt til þess árvissa viðburðar að fara á Borough Market sem er útimarkaður sem selur sælkera-matvæli alls staðar að úr heiminum ekki langt frá þar sem ég bý til að fá mér fyrsta „mulled wine“-bolla aðventunnar.“

Bresku vinirnir elska Pottþétt jól 3

En hvaða íslensku jólasiði getur hún ekki verið án á aðventunni? ,,Klárlega að setja Pottþétt jól 3 geisladiskinn á fóninn. Þetta er eini jóladiskurinn sem ég á. Breskir vinir mínir elska diskinn og veltast um af hlátri þegar hann er spilaður því þar fá þeir að heyra jólalög sem mörg hver eru alþjóðleg flutt á hinni fögru íslensku tungu.  Þar tekur Helga Möller til að mynda slagarann „Jólin þín og mín“ sem hjartaknúsarinn Cliff Richard gerði frægan og Kristján Jóhannsson klassíkerinn „Heims um ból“. Sumir vinanna hafa meira að segja fengið að afrita þennan stórgóða disk til að spila í eigin jólaveislum og vekur hann alls staðar jafnmikla kátínu.

 

Jólasveinninn afhjúpaður í stórvöruverslun

Hvernig er með jólasveinana í Bretlandi, koma þeir í mörgum útgáfum þar eins og hér? ,,Bresku jólasveinarnir hafa lítið annað að segja en „hó, hó, hó“. Þeir virðast aukinheldur taka sér fátt fyrir hendur um jólin annað en að selja drasl. Ef það er ekki Kók þá eru það vaxtalaus lán til kaupa á jólagjöfum handa börnunum.“ Sif segir mikið uppþot hafa orðið í breskum fjölmiðlum og fjölda breskra barna hafa orðið fyrir miklu áfallið á dögunum þegar sjónvarpsauglýsing sýndi gervijólasvein.  ,,Í auglýsingunni sést föngulegur krakkahópur syngja um að það er ekki jólasveinninn sem setur gjafirnar undir jólatréð heldur mamma þeirra – og í ár getur hún nýtt sér vaxtalausar afborganir verslunarinnar til að redda pökkunum. Fólki þótti verslunin heldur ósvífin að koma upp um að jólasveinninn væri ekki til um leið og foreldrar voru hvattir til að kaupa jólagjafir handa börnum sínum sem þeir höfðu ekki efni á.“

Ekki bara djúpsteikur fiskur og stappaðar grænar baunir

,,Bretar eru gjarnan sakaðir um að hafa ekkert fram að færa þegar kemur að matarmenningu heimsins. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að ýmislegt markvert leynist innan um djúpsteikta fiskinn þeirra og stöppuðu grænu baunirnar“ segir Sif þegar hún er spurð um hvort það sé eitthvað í breskri matarmenningu sem heilli hana.  ,,Það er til að mynda fátt betra á köldu vetrarkvöldi en „shepherd’s pie“ og í þynnkunni eru „bangers and mash“ ómissandi. Jólamatur Bretanna er ekki ósvipaður því sem við Íslendingar eigum að venjast en kalkúnninn sækir sífellt í sig veðrið. „

Sif segir að það sé eitt meðlæti sem sé til á öllum breskum borðum um jólin sem ætti skilið Nóbelsverðlaunin ef þau væri veitt í flokki matargerðar og það sé svokallaðar ,,Roasted potatoes“ eða ristaðar kartöflur. ,,Roasted potatoes láta lítið yfir sér. Hefði fullkomnun bragð myndi hún hins vegar bragðast eins og „roast potatoes“. Um er að ræða kartöflur sem eldaðar eru í gæsa- eða andafitu uns þær verða stökkar að utan en lungamjúkar að innan. Hafi tekist vel til bráðna þær uppi í manni eins og smjör.“  Sif segist ekki geta verið þekkt fyrir annað en að deila uppskriftinni að ,,Nóbelsverðugri fullkomnun“ með öðrum.

Við þökkum Sif kærlega fyrir viðtalið og óskum henni gleðilegrar jóla.

 

Roasted potatos

Roasted potatoes að hætti Breta

Hráefni:

1 kg kartöflur (helst tegund sem er „mjölkennd“ (e. „floury) sem verður extra rjómakennd við bakstur).

100 g gæsa- eða andafita (frönsk gæsafita er algjör eðall … ég vona að hæstvirtur landbúnaðarráðherra leyfi innflutning á slíkum munaði því ég er ekki viss um að íslensk lambafita leiði af sér sömu niðurstöðu).

2 teskeiðar hveiti.

Maldon salt.

Aðferð:

– Hitið ofninn í 180C (200C sé hann ekki með viftu). Setjið rúmgóða ofnskúffu inn í ofninn og leyfið henni að hitna.

– Skrælið kartöflurnar og skerið hverja í fjóra bita (tvo séu þær litlar).

– Setjið kartöflurnar í pott með vatni og salti. Látið suðuna koma upp og leyfið kartöflunum að sjóða í tvær mínútur.

– Setjið fituna í ofnskúffuna og leyfið henni að hitna vel.

– Hellið vatninu af kartöflunum gegnum sigti.

– Hristið kartöflurnar til í sigtinu svo yfirborð þeirra úfni.

– Stráið hveitinu yfir kartöflurnar og hristið aðeins meira.

– Setjið kartöflurnar varlega í heita ofnskúffuna – það ætti að snarka í fitunni – og veltið þeim vel upp úr fitunni.

– Dreifið kartöflunum um ofnskúffuna svo hver kartafla hafi nóg pláss.

– Bakið kartöflurnar í 40-50 mínútur. Veltið þeim upp úr fitunni á 10-15 mínútna fresti uns þær eru gylltar og stökk að utan en mjúkar að innan.

– Stráið loks saltinu yfir.