Vigdís Ásgeirsdóttir er söngkona og nemandi við Codarts sem er listaháskóli í Rotterdam. Hún er viðmælandi númer tvö í jóladagatali Já Íslands þar sem við forvitnumst um jólasiði Íslendinga sem búa í ESB ríkjunum.

Vigdís hefur búið í Hollandi frá því í lok sumars og það sem dró hana til landsins var námið. ,,Ég í heimstónlistardeild að læra latinsöng sem einkennist aðallega af brasilískri og kúbanskri tónlist.“ segir Vigdís aðspurð um hvað hún sé að læra í Hollandi.

Jólasveinn Hollendinga Sintaklaas

En hvað hefur komið henni mest á óvart í jólahaldi Hollendinga? ,,Hollendingar eru ekki mikil jólabörn.  Aðal dagurinn þeirra er 5.desember sem er dagur St. Nikulásar. Hann kemur þá með pakka handa börnunum. Það er sem sagt ekki gefið að maður fái pakka á sjálfum jólunum.“  Vigdís fær að prófa,,Sintaklaas jólin“  sem er hollensk jólahefð sem haldin er í kringum 5. desember, þar sem fólk skiptist á pökkum og frumsömdum ljóðum um hvort annað. ,,Ég á eftir að upplifa þetta núna á laugardaginn þar sem ég mun eyða deginum með hollenskri/íslenskri fjölskyldu. Sjálf jólin eru í raun einungis kristileg hátíð sem einkennist af messum og hátíðlegheitum.“

Hún segist þó ekki hafa tekið upp aðra jólasiði í Hollandi ,,Ekki aðra en að ég ætla að halda upp á St.Nikulásardaginn, annars verð ég heima á Íslandi um sjálf jólin.“

En hvernig er jólaundirbúningurinn ólíkur nú og áður? ,,Undirbúningurinn verður ekki jafn mikill og venjulega þar sem ég kem ekki heim fyrr en 23.des. En þá ætla ég svo sannarlega að halda jólin eins og venjulega með fjölskyldunni minni.“  Aðspurð um milliríkja samkomulagið  varðandi íslensku jólasveinana þrettán? koma þeir til Hollands og gefa í skóinn?

,,Auðvitað“ svara Vigdís um hæl. ,,En bara til Íslendinganna.“ bætir hún við.