Kristrún Kristmundsdóttir er búsett í Danmörku ásamt kærasta sínum en þangað fóru þau til þess að stunda nám. Þar hafa þau kynnt sér danska jólasiði sem Kristrún segir að einkennist af mikilli drykkju, rétt eins og flestar hátíðir Dana. Maturinn sem fylgir er þó mjög góður að mati Kristrúnar en þetta árið ætla vinirnir að halda svokallað julefrokost saman þar sem allt mögulegt er borðað og drukkið. Hún mun þó koma heim um jólin þar sem skatan er ómissandi að hennar mati. Þá hefur Kristrún rekist á nokkra jólaálfa á götum Danmerkur.

Aðspurð um hvað það sé sem hefur komið henni mest á óvart í jólahaldi Dana segir Kristrún:

“Það er þá kannski helst öll drykkjan sem fylgir dönskum hefðum almennt. Hér er haldið upp á J-daginn, sem er dagurinn sem jólabjórinn kemur á kranana á börunum. Við fórum niður í bæ núna síðasta J-dag, og vorum alveg steinhissa á mannflóðinu. Þetta minnti á 17. júní á Íslandi!”

Þegar Kristrún er spurð um hvaða dönsku jólasiði hún hefur tekið upp segir hún:

“Eins og ég minntist á áðan, þá forum við út síðasta J-dag. Auk þess erum við nokkrir vinir að stefna á að halda hefðbundinn danskan  julefrokost saman. Það snýst í stuttu máli um að njóta samvista á meðan maður borðar og drekkur sem allra mest.”

En er ekki haldið í íslensku siðina ennþá?

“Núna í ár verða jól númer tvö síðan við fluttum út. Í ár, líkt og í fyrra, þá förum við heim um jólin. Það hafa því engir íslenskir siðir gleymst. Skatan er meira að segja ómissandi að mínu mati” segir Kristrún.

Er eitthvað í danskri jólamatargerð sem heillar þig?

“Ég er mjög hrifin af matnum sem borinn er fram í julefrokost. Maturinn er í fjórum hlutum. Fyrst er borðið fyllt af köldum smáréttum sem maður raðar á brauð (helst danskt rúgbrauð). Meðal annars síld, reyktur lax og margt fleira. Næsti réttur er heit lifrakæfa og kjötbollur. Sumir hafa líka andakjöt. Eftir það eru hinir ýmsu ostar bornir fram. Í lokin er svo danskt ávaxtasalat borið fram.”

Aðspurð um það hvort íslensku jólasveinarnir þrettán koma til Danmerkur segir Kristrún:

“Ég er nú ekki viss um það, en hér eru að minnsta kosti þessir julenisser, einhvers konar jólaálfar. Þeir svipa kannski að vissu leyti til íslensku sveinanna, en hafa þó ekki eins sterka persónuleika.”