Í Póllandi hefjast jólin þegar fyrsta stjarnan birtist á himninum á aðfangadag, jólasveinninn heitir Saint Nikulás og kemur 6. desember.  Íslensk börn eru þó með tvöfalda jólasveina tryggingu því þeir íslensku eru með svo gott bókhald um staðsetningu íslenskra barna að þeir elta íslensk börn uppi í útlöndum til að gefa þeim í skóinn. Anna Hera Björnsdóttir er búsett í Póllandi ásamt eiginmanni og syni, hún sagði okkur stuttlega frá jólasiðum Pólverja og jólstemmingunni þar í landi.

,,Mér finnst mjög skemmtilegur siður að syngja nokkur jólalög eftir borðhaldið á aðfangadag eins og tíðkast víða í Póllandi. Þá sest fjölskyldan saman og syngur áður en þau opna pakkana.“ Segir Anna Hera aðspurð um hvað sé skemmtilegast við jólin í Póllandi.

 

,,Annað sem er mjög spennandi er að pakkarnir eru merktir með nafni þess sem á að fá pakkann. Það er ekki endilega vitað hver gefur pakkann. Stundum er það jólasveinninn eða stjörnukarlinn eða gwiazdor á pólsku. Þetta skapar skemmtilega stemmningu þar sem allir gjóa aðeins á hvern annan og reyna að geta sér til um hver hafi gefði hvað.“

Ólíkt íslensku borðhaldi á aðfangadagskvöld er siður í Póllandi að minnast ársins. ,,Mér finnst einn siður mjög fallegur sem er að í upphafi borðhalds á aðfangadag fá allir við borðið bita af flötu brauði eða oblötu. Sérhverjir tveir brjóta bita af hvors annars brauði og minnast einhverra skemmtilegra atburða sem þeir áttu saman á árinu eða þakka fyrir samverustundirnar. Svo óska þeir hver öðrum velfarnaðar á komandi ári og nefna þá oft eitthvað sem viðkomandi  mun eiga fyrir stafni eða stefnir að á komandi ári eins og “vonandi gengur vel að skipuleggja brúðkaupið” eða “gangi þér vel að klára næstsíðasta árið þitt í menntaskólanum” eða eitthvað álíka.“

 

En hvernig er með íslensku jólasveinana, koma þeir allir til Póllands og gefa íslenskum börnum í skóinn?

,,Já,  þeir virðast halda til haga einhverju bókhaldi um hvar íslensku börnin eru stödd í heiminum því sonur minn hefur a.m.k fengið heimsóknir frá þeim. Í Póllandi kemur hins vegar Heilagur Nikulás til byggða 6. desember og þá fá öll pólsk börn gjafir. Þar sem sonur minn er hálfur Pólverji og hálfur Íslendingur nýtur hann að sjálfsögðu góðs af þessu mismunandi fyrirkomulagi hjá jólasveinunum í þessum tveimur löndum“.

Aðspurð um hvernig pólski jólasveinninn hagar sér segir Anna Hera ,,Að kvöldi 5. desember setja pólsk börn bréf til jólasveinsins út í glugga þar sem þau taka fram hvað þau vilja fá í gjöf frá honum. Daginn eftir er gjöf í glugganum og bréfið farið. Stundum er gjöfin sett í sokk. Svo fá börnin gjafir á leikskólanum og frá ættingjum því hinn gríðarlega iðni Nikulás kemur líka sendingum til barnanna í gegnum ættingja og leikskóla.“

 

En hvernig fara sjálf jólin fram? er aðfangadagur aðalkvöldið eins og hér á landi? ,,Eins og á Íslandi er aðfangadagur aðal dagur jólahátíðarinnar í Póllandi. Borðhald hefst um leið og fyrsta stjarnan birtist á himninum. Byrjað er á að brjóta bita af hvors annars brauði eða oblötu eins og ég lýsti fyrir ykkur áðan. Í forrétt er mjög vinsælt að bjóða uppá rauðrófusúpu.  Aðalrétturinn samanstendur oftast af mörgum minni réttum. Það er  hefð að  borða fisk (t.d karfa) á þessu kvöldi. Oft er síld á borðum, brauð, steikt súrkál með sveppum, sósa, kartöflur og salöt. Í eftirmat eru svo bornar á borð kökur og smákökur sem bakaðar hafa verði á aðventunni.“

 

En hvaða íslensku hefðir finnst Önnu Heru alveg ómissandi að í jólahaldinu?

,,Mér finnst ómissandi að baka, að minnsta kosti eina sort. Mér finnst líka ómissandi að hafa jólarós í stofunni. Mér finnst líka gaman að skrifa jólakort, en það hefur þó gerst að það hafi klikkað. En ég hugsa mikið til fólksins í kringum mig á þessum árstíma og rifja upp samverustundirnar, það finnst mér ómissandi.“

 

Að lokum deildi Anna Hera með okkur uppskrift að pólsku rauðkáli sem er sérstök jólauppskrift.

 

Innihald:

2 matskeiðar smjör (eða olía) til steikingar

Eitt rauðkálshöfuð

Eitt epli

4 matskeiðar sykur

½  bolli af rauðvín

1 tsk balsamik edik

Rúsínur og/eða möndlur (má sleppa)

 

Aðferð:

Skerið rauðkálið í ræmur. Bræðið smjör í potti. Setjið rauðkálið ofan í og steikið við meðalhita í 5 mínútur. Stráði sykri yfir og hellið víni og ediki í pottinn. Ef þið viljið hafa rúsínur og/eða möndlur skal setja það í pottinn. Möndlurnar er gott að saxa áður en þær fara í pottinn. Lækkið hitann á hellunni og látið malla í 30 mínútur. Á meðan rífið epli niður og bætið við í lokinn. Kryddið með salti og pipri.

Smacznego!