Í dagblöðum undanfarna daga hafa birst nokkrar ágætar greinar þar sem lögð er áhersla á að Íslendingar fari að ræða hugsanlega aðild sína að ESB með hliðsjón af fleiri þáttum en efnahags- og gjaldmiðlamálum. Í greininni „ESB sem afvötnun?“ í Fréttablaðinu í gær minnti Eygló Harðardóttir, þingkona Framsóknarflokksins, til að mynda á að „ESB var á sínum tíma stofnað til að tryggja frið og frelsi í Evrópu eftir hamfarir tveggja heimsstyrjalda. Leiðin að því markmiði var víðtæk pólitísk samvinna, meðal annars, en ekki aðeins á sviði efnhagsmála. Helsti árangur ESB er einmitt friður og þar með velmegun í Evrópu.“

Tilefni þessarar greinar voru skrif Magnúsar Orra Schram, þingmanns Samfylkingarinnar, um þann efnahagslega ávinning sem falist getur í aðild að ESB. Eygló sagði hins vegar „löngu tímabært að Íslendingar ræði aðild að ESB sem þátttöku fullvalda þjóðar í samstarfi Evrópuþjóða, en ekki sem þynkumeðal við heimabrugguðum vandræðum.“ Þetta eru orð í tíma töluð en ein af forsendum víðsýnni umræðu um ESB hér á landi er að sem flestir Íslendingar kynni sér sögu, markmið og starfsemi ESB.

Í því sambandi er ástæða til að vekja athygli á bæklingnum „Stutt um Evrópusambandið“ sem sendinefnd ESB á Íslandi hefur nýlega sent frá sér í endurskoðri útgáfu, meðal annars á vefnum. Einnig er hægt að fá eintök send heim eða á vinnustað. Í bæklingnum, sem er 30 bls. að lengd, er jafnframt að finna stutt yfirlit yfir tengsl ESB og Íslands. Þá er ástæða til að vekja athygli á skýrum upplýsingavef ESB á ensku, Europe. Gateway to the European Union. Hér á vef Já Ísland er einnig að finna tenglasafn inn á margháttað efni sem tengist ESB og umræðunni um aðild Íslands að sambandinu.