Glöggir vegfarendur hafa tekið eftir nýjum auglýsingum á flettiskiltum við Vífilstaði og gatnamót Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar í Reykjavík. Auglýsingarnar eru á vegum Já Ísland og flytja vegfarendum stutt kjarnaskilaboð um kosti og tækifæri við aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Evrópumálin eru sannarlega á dagskrá og viðræður við ESB ganga vel og ef fer fram sem horfir lýkur rýnivinnu nú í vor og eiginlegar samningaviðræður hefjast í lok júní með formlegum hætti og halda svo áfram af fullum krafti í haust.

Á skiltunum tveimur er minnt á nokkur atriði sem skipta máli fyrir almenning:

Matvælaverð og vexti, sem eru grundvallarstærðir í rekstri heimila en hvoru tveggja mun lækka við aðild að ESB. Þá mun vöruúrval aukast og verðtrygging verða úr sögunni með evrunni þegar þar að kemur.

Lífskjör og ný tækifæri, sem munu batna og tækifærum fjölga með auknum stöðugleika í efnahagslífi, bættum starfsskilyrðum fyrirtækja, fjölbreyttari tækifærum til starfa og minni rekstrarkostnaði heimilanna.

Það fólk sem fylkir sér að baki JÁ Ísland heldur ótrautt áfram baráttu sinni fyrir aðild að Evrópusambandinu enda sannfært um að aðildin verði landi og lýð til góðs og að samningamönnum Íslands takist að landa aðildarsamningi sem Íslendingar geta verið stoltir af og samþykkt kinnroðalaust. Íslandi ber sess sem þjóð meðal þjóða innan ESB.