jonsteindor_myndAllar kosningar eru mikilvægar. Fyrir okkur Evrópusinna á það sannarlega við um Alþingiskosningarnar laugardaginn 27. apríl 2013.

Við vorum 15.000 sem hvöttum fráfarandi ríkisstjórn til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leggja niðurstöður í dóm þjóðarinnar. Það gekk eftir og samningaviðræðurnar eru nú langt komnar.  Lokaspretturinn, sem vissulega er mikilvægur,  er enn eftir og þar verður stærstu spurningunum svarað.

Ítrekað kemur fram í skoðanakönnunum að yfir 60% landsmanna vilja klára viðræðurnar, sjá samninginn fullgerðan. Þá bregður hins vegar svo undarlega við að áhrifamiklir stjórnmálamenn telja það vænlegast að slíta, hætta, stöðva eða gera hlé (margbreytilegt orðalag notað) á þessum viðræðum. Eigi að taka þær upp aftur verði það ekki nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Með þessum hætti ganga þeir gegn ákvörðun Alþingis um að sækja um aðild og ætla að stöðva flókið samningaferli við helstu vina- og samstarfsþjóðir okkar í Evrópu án nokkurrar sýnilegrar ástæðu. Um leið fara þeir gegn þjóðarvilja sem er að ljúka viðræðum. Allt er þetta undarlegt, óábyrgt og hvorki til þess fallið að fá lausn í málið né auka traust umheimsins á okkur sem alvöru viðmælanda á alþjóðavettvangi.

Það reynir vissulega á okkur Evrópusinna í þessum kosningum. Nái þau öfl yfirhöndinni sem vilja hætta við allt saman er harla ótrúlegt að þau muni gera nokkuð til þess að ferlið fari af stað að nýju. Af hverju ættu þau að greiða götu máls sem þau eru á móti?

Fyrir mig er valið í kosningunum ekkert gamanmál.  Það eru margir kostir í boði og áherslur ólíkar. Þegar kjarninn er hins vegar skilinn frá hisminu, stöðubaráttu flokkanna og vandamálum líðandi stundar þá verður valið auðveldara. Evrópumálið er einfaldlega svo stórt í mínum huga að það  ræður mestu um hvað ég geri í kjörklefanum á laugardaginn. Það er miklu stærra og áhrif þess víðfeðmari og langvinnari en að því megi fórna í valdabaráttu flokkanna.

Hvort ræður kjarninn eða hismið?  Þeirri spurningu þurfa allir Evrópusinnar að svara á laugardaginn.

Jón Steindór Valdimarsson
formaður Já Ísland