Diana Wallis, varaforseti Evrópuþingsins, hélt erindi á vegum Alþjóðamálastofnunar HÍ þar sem hún kynnti störf þingsins. Evrópuþingið er löggjafarstofnun Evrópusambandsins og þar sitja 736 þingmenn frá 27 aðildarríkjum. Þingmenn eru kosnir með beinni kosningu í hverju aðildarríki og kosið er á fimm ára fresti.

Hún sagði einnig frá því að þingmenn sitja ekki saman eftir þjóðernum í þinginu, heldur eftir stjórnmálaskoðunum. Vorið 2009 voru átta stjórnmálahópar starfandi á þinginu. Stærstur þeirra er flokkur kristilegra demókrata og næst á eftir er flokkur sósíaldemókrata. Á heildina litið endurspegla skoðanir þingmanna allt litróf viðhorfa til Evrópusamrunans, allt frá þeim sem vilja að ESB þróist í átt að sambandsríki og til efasemdamanna um nána evrópska samvinnu.

Wallis sagði einnig frá Votewatch EU, sem eru óháð félagasamtök, sem taka saman upplýsingar um starfsemi þingsins.  Niðurstöður samtakanna sýna að þingmenn sem sitja á Evrópuþinginu kjósa nær alfarið eftir stjórnmálaskoðunum fremur en þjóðerni. Það vekur einnig athygli að samstaða þingmanna á Evrópuþinginu er ívið meiri en í þjóðþingum allra aðildarríkjanna.

Skýrslu Votewatch má nálgast hérna.