Í lok apríl hratt Illugi Jökulsson af stað undirskriftasöfnun undir heitinu Klárum dæmið.

Yfirlýsingin sem skrifað er undir er svohljóðandi:

„Ein mikilvægasta spurningin sem Íslendingar standa frammi fyrir er hvort aðild að ESB yrði okkur til góðs eða ekki. Verði sú spurning ekki útkljáð af þjóðinni sjálfri má gera ráð fyrir þrotlausum deilum um málið næstu ár og áratugi.

Aðildarviðræðum við ESB mun væntanlega ljúka innan árs. Við undirrituð viljum ljúka samningum við ESB, svo við getum sjálf tekið upplýsta ákvörðun um hvort aðild hentar okkar eða ekki. Við viljum ekki treysta þingmönnum einum fyrir því.

Við erum alls ekki öll sannfærð um að aðild að ESB henti okkur. En við viljum að þjóðin fái að ráða ferðinni. Við viljum klára dæmið.“

Þrátt fyrir að söfnunin sé einkaframtak Illuga og hafi ekki verið auglýst eða fylgt eftir með auglýsingaherferð hafa, þegar þetta er ritað, rúmlega 11.000 konur og karlar af öllu landinu sett nafn sitt við yfirlýsinguna.

Já Ísland hvetur alla til þess að skoða hug sinn og séu þeir sammála því að skynsamlegt sé að klára dæmið að setja nafn sitt undir yfirlýsinguna.

Slóðin á Klárum dæmið er: www.klárumdæmið.is.