Í Fréttablaðinu í dag, þann 13. desember, birtist grein eftir Ólaf Stephensen, ritstjóra blaðsins. Í greininni fjallar Ólafur um greinar Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ og Ólafs Darra Andrasonar, hagfræðings, sem hann telur „afar vandaðar og vel rökstuddar greinar um vaxtamál, gjaldmiðil og húsnæðismál“ sem birtust í Fréttablaðinu síðustu tvær helgar.

Í grein Ólafs segir meðal annars:

„Í fyrsta lagi sýna tvímenningarnir fram á að tal um að banna verðtryggð lán eða afnema verðtryggingu er ekki lausn á skuldavanda heimila eða stökkbreytingu lána þegar verðbólguskot koma.“

„Í öðru lagi draga Gylfi og Ólafur Darri skýrt fram að fylgni er á milli verðbólguskota og falls krónunnar. Það útskýrist af því að hlutdeild innfluttra vara í neyzlu Íslendinga er um 40%. Þegar krónan fellur, sem gerist reglulega, hækkar verð. Tilraunir til að halda genginu föstu hafa misheppnazt. Það er þannig gjaldmiðillinn, sem er vandinn.“

„Í þriðja lagi sýna ASÍ-mennirnir fram á gríðarlegan vaxtamun á milli Íslands og evrusvæðisins. Undanfarin tólf ár hefur munur á vöxtum á óverðtryggðum ríkisbréfum verið 7,7% að meðaltali. Munurinn á vöxtum húsnæðislána hefur lengi verið á bilinu 4-5% og rýkur upp þegar verðbólgan nær sér á strik. Gylfi og Ólafur Darri vitna til gagna sem sýna að húsnæðisvextir í ýmsum smærri löndum Evrópu lækkuðu verulega þegar þau gengu í ESB.“

Þá segir Ólafur í niðurlagi greinarinnar: „Meðal annars vegna þess gífurlega langtímaávinnings fyrir íslenzk heimili sem felst í því að taka upp annan gjaldmiðil, væri ábyrgðarlaust að kasta nú frá sér tækifærinu til að taka upp evruna. Þvert á móti á að klára samninga, sem opna Íslendingum þann möguleika. Það tekur tíma og að þeim tíma loknum er hægt að skoða hver staðan er á evrusvæðinu – samanborið við krónusvæðið.“

Greinina má lesa í heild sinni hér: http://www.visir.is/kostnadurinn-vid-kronuna/article/2011712139909