bolli2Bolli Héðinsson, hagfræðingur, skrifar áhugaverða grein í Fréttablaðið í dag, þriðjudaginn 26. mars, um afnám verðtryggingarinnar og hvað skal koma í hennar stað, og þau fáu svör sem fást við þeirri spurningu.

Bolli segir meðal annars:

„Ef hér á landi ríkti samkeppni á fjármálamarkaði myndu fjármálastofnanir sjá sér leik á borði og bjóða upp á fleiri tegundir lána en þau hefðbundnu vísitölulán sem okkur bjóðast í dag. Óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum eru kostur sem margir hafa nú kosið að nýta sér og á eftir að sýna sig hvernig reynast í íslensku efnahagsumhverfi. Önnur lánaafbrigði hljóta einnig að koma til greina, t.d.

1. lán með verðtryggingarþaki þannig að lán hækki ekki yfir fyrirfram umsamin mörk.
2.  fasteignalán þar sem fasteignin ein er sett að veði, án sjálfskuldarábyrgðar, þannig að lántakandi geti skilað inn lykli að eigninni og verið skuldlaus, lendi hann í erfiðleikum með afborganir.

Báðar þessar leiðir eru færar og ekkert nema skortur á samkeppni á fjármálamarkaði kemur í veg fyrir að þær séu nú þegar í boði. Rétt er að benda á að sá sem tekur lán á þessum kjörum, annaðhvort með verðtryggingarþaki eða „lyklaákvæði“ þyrfti sjálfsagt að greiða töluvert hærri vexti en sá sem tekur hefðbundið verðtryggt lán.“

Þá lýkur Bolli greininni á þessum orðum:

„Allt ber þetta þó að sama brunni, hér á landi ríkir ekki samkeppni á fjármálamarkaði og eina vonin til að hér megi búast við samkeppni, verður ekki fyrr en erlendir bankar sjá ástæðu til að opna hér útibú. Það er ekki líklegt til að freista þeirra, fyrr en við tökum upp annan gjaldmiðil. Enn hefur ekki verið sýnt fram á að Íslendingum standi neinir aðrir gjaldmiðlar til boða en evra, í kjölfar aðildar að ESB.“

Greinina er hægt að lesa í heild sinni hér.