Í dag, þann 1. desember, samþykkti Evrópuþingið umsókn Króatíu um aðild að Evrópusambandinu, en eins og fram kemur í sáttmálum Evrópusambandsins þarf þingið að samþykkja allar aðildarumsóknir.

„Í dag er góður dagur fyrir Króatíu og ESB“ sagði Jerzy Buzek, forseti Evrópuþingsins, eftir atkvæðagreiðsluna í dag. Hann bætti síðan við: „við höfum sýnt skýrt merki um að ESB vilji Króatíu. Króatar geta bráðum sýnt stuðning sinn við ESB í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Næsta skref verður síðan tekið 8-9 desember þegar Króatía og öll aðildarríki ESB skrifa undir aðildarsamninginn milli Króatíu og ESB,  sem aðildarríkin þurfa síðan að staðfesta.

Gert er ráð fyrir að Króatía verði fullgildur aðili að Evrópusambandinu 1. júlí 2013.