Það er samdráttur í hagkerfinu og þar spilar inn vöxtur svarta hagkerfisins. Fjárfestingar hafa dregist saman um 50%, þar er fyrirferðamest minnkun fjárfestinga hins opinbera eða um 30% og svo fjárfestinga í bygginga og verktakaiðnaði eða um 25%. Kaupmáttur reglulegra launa hefur minnkað um 17-18% og kaupmáttur ráðstöfunartekna um 25-26%. Hrapið og atvinnuleysið er mest á almenna markaðnum og það segir okkur að þar hefur farið fram mesta kaupmáttarhrapið, í sumum atvinnugreinum eins og t.d í byggingariðnaði er það líklega allt að 50% að jafnaði.

Það er rétt sem forsætisráðherra segir að botninum er náð og við höfum aðeins náð okkur af stað, en það sem skiptir okkur mestu er hversu öflug viðspyrnan frá botninum verður. Álver er ekki heildarlausn og skiptir ekki öllu máli, en það skiptir miklu máli þegar svona mikill doði er í hagkerfinu og það gæti skipt sköpum um hversu öflug viðspyrnan frá botninum verður. Við verðum með öllum tiltækum ráðum að auka verðmætasköpun.

Landsvirkjun, OR ásamt fleiri fyrirtækjum fá ekki lán vegna þess að Icesave málin eru ekki frágengin og það er búið að kosta Ísland gríðarlega fjármuni og hefur bitnað harkalega á almenna vinnumarkaðinum. Allt útlit er á að OR hafi ekki bolmagn til þess að fara í Bitru og Hverahlíðavirkjanir og mun leiða til þess að við sjáum fram á að þurfa að vera á botninum um alllangt skeið, líklega 10 – 15 ár.

Það er klárt að við munum aldrei ná okkur upp frá botninum til framtíðar með krónunni. Við verðum að taka til og það duglega hvort sem við göngum í ESB eða ekki. En það er ljóst að ef við stefnum markvist að ESB þá munum við komast í var og fá stuðning til þess að mynda nauðsynlegan stöðugleika.

Danskir launamenn eru ekki í sömu stöðu og við. Íslenskum launamönnum er í kjarabaráttu sinni gert að hlaupa á hlaupbretti þar sem stjórnmálamenn stýra hraðanum. Við hlaupum sem best við getum, en erum nánast alltaf á sama stað. Búin að semja um tæplega 4.000% launahækkanir á meðan danskir launamenn hafa samið um 330% og ganga fram örugglega, án þess að vera gert að standa á hlaupabrettinu, til vaxandi kaupmáttar við stöðuleika og lága vexti með eignir sínar varðar í stöðugu hagkerfi á meðan 24 þús. íslensk heimili liggja í valnum.