Í dag, þann 28. október, birtist grein á visir.is eftir Friðrik Indriðason, fréttamann Bylgjunnar og Vísis.is, þar sem hann fjallar um íslensku krónuna og þá umræðu sem hefur átt sér stað um hana undanfarið.

Í greininni segir meðal annars: „Það var athyglisvert að fylgjast með umræðunni um krónuna á margumræddri ráðstefnu í Hörpu í gærdag. Þar voru samankomnir margir og miklir spekingar með mismunandi skoðanir á ágæti þeirrar myntar. Er hún bjargvætturinn, eða snákurinn, í grasinu?“

„Aðdáendur krónunnar segja að hún hafi bjargað okkur í kreppunni og þeir hafa vissulega nokkuð til síns máls. Hinsvegar skil ég ekki alveg hvernig það eru rök fyrir áframhaldandi tilvist hennar. Nema náttúrulega að þessir spekingar viti fyrir víst að hér verði allt í hári og fári í efnahagsmálum og viðvarandi kreppur næstu áratugina eða aldirnar. Þá er gott að hafa krónuna.“

„Andstæðingar krónunnar benda á að hún er í rauninni handónýt mynt og þeir hafa vissulega nokkuð til síns máls. Þú getur hvergi skipti henni í aðrar myntir nema með skilyrðum í íslenskum bönkum. Dollurum eða evrum er hægt að skipta nær hvar sem er í heiminum án vandræða. Þar að auki setti krónan þúsundir heimila á hausinn þegar hún féll niður úr gólfinu haustið 2008.“

Þá skrifar Friðrik að hann sé fylgjandi því að slá krónuna af og að auðveldasta leiðin til þess sé að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna.

Greinina í heild sinni má lesa hér: http://www.visir.is/kronan-o-kronan/article/2011111028972?fb_ref=under&fb_source=home_oneline