Allt frá Hruni hefur margoft komið að Ísland búi ekki einungis við bankakreppu eins svo mörg önnur lönd, hin alvarlega staða okkar sé fólgin í gjaldeyriskreppu. Aðalógn atvinnulífsins er fólgin í því hversu lág laun eru orðin hér miðað við nágrannalönd, og það virðist stefna í að þau muni ekki leiðréttast fyrr en eftir töluverðan tíma. Þetta mun leiða til mun meiri atgerfisflótta.

Stjórnmálamenn hafa í gegnum áratugina margítrekað eyðilagt ávinning sem launamenn hafa náð í gegnum mikla kjarabaráttu með einu pennastriki í því að lækka gengi krónunnar. Krónan er í raun mesti óvinur íslenskra launamanna í baráttu þeirra við að ná upp sambærilegum kaupmætti og er í nágrannalöndum okkar og gegn því að Ísland sé láglaunasvæði.

Íslenskt hagkerfið hefur tengst stærri hagkerfum vegna aukinna umsvifa atvinnulífsins. Örmynt eins og krónan veldur miklum óstöðugleika, sem kallar á að vextir séu um 3,5% hærri en ella. Það krónan veldur einnig hærra verðlagi, verðtryggingu og minni kaupmætti.

Einangrunarsinnar hafa margoft varið krónuna með því að þá sé ekki hægt að grípa til gengisfellinga í kjölfar óskynsamlegra kjarasamninga stéttarfélaganna. (Leiðrétt blóðsúthellingalaust of góða kjarasamninga stéttarfélaganna, eins og Hannes Hólmsteinn og margir þingmenn Sjálfstæðismanna hafa margoft sagt). Þetta gengur reyndar þvert á það sem þessir hinir sömu stjórnmálamenn halda fram, að aðilar vinnumarkaðsins eigi að semja sjálfir um laun og kjör án þess að vera trufla ríkisvaldið.

Oft er gripið til klisjunnar um að það sé verkalýðsfélögum til skammar hversu lág laun séu í landinu. Einkennilegt er að hlusta svo á þá hina sömu vilja viðhalda ónýtri krónu til þess eins að viðhalda völdum sínum svo þeir geti gripið inn í gerða kjarasamninga og haldið launum hér á landi niðri.

Þessa dagana æpir á okkur að á meðan kaupmáttur launamanna hrynur vegna lágs gengis krónunnar, þá mokar sá atvinnuvegur til sín ofboðslegum hagnaði, sem hefur sig hvað harðast frammi í viðhaldi einangrunar með góðum stuðningi stjórnmálamanna sem kynna sig sem málsvara frelsis og jöfnuðar.

Guðmundur Gunnarsson