Í Fréttatímanum í dag, föstudaginn 5. október, birtist grein eftir Egil Almar Ágústsson, meistaranema í hagfræði og fjármálum við Brandeis háskóla í Bandaríkjunum. Hann fjallar um tvo valkosti sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir í gjaldmiðilsmálum. Hér að neðan má lesa greinina í heild sinni.

Í þarsíðustu viku kom út rit Seðlabankans um valkosti í gjaldmiðilsmálum. Þar er í raun komist að þeirri niðurstöðu að aðeins tveir valkostir séu til staðar fyrir Íslendinga. Annað hvort áframhaldandi króna eða evra með inngöngu í Evrópusambandið. Einhliða upptaka er talinn óraunhæf. Enn fremur flækja gjaldeyrishöftin málið. Þau gera það að verkum að sú spurning hvort við getum haldið áfram í EES blandast í málið. Skoðum þessa tvo valkosti og útvíkkum hvað þeir þýða í raun og veru.

Evra með inngöngu í Evrópusambandið

Í samningaviðræðum við Evrópusambandið verður samið um það hvernig ferlið í kringum upptöku evru á Íslandi mun verða. Afnám gjaldeyrishafta verður mikilvægur þáttur í þeim samningaviðræðum og það kann að vera að samningarnir snúist um hvort Evrópusambandið geti hjálpað Íslandi að leysa gjaldeyrishöftin. Endapunkturinn verður að Ísland verði með evru og algerlega án gjaldeyrishafta.

Króna utan EES

Fyrir nokkrum vikum gaf Seðlabankinn út rit um mögulegar varúðarreglur eftir fjármagnshöft. Í raun og veru var Seðlabankinn að segja að hann teldi ekki raunhæft að hafa algerlega frjálsa fjármagnsflutninga meðíslenskri krónu. Í öðrum orðum að gjaldeyrishöft yrðu áfram. Jafnframt hefur skapast ákveðin samstaða í umræðunni um að krónu muni alltaf fylgja einhver höft. Gjaldeyrishöft eru brot á EES samningnum. Þau fara gegn grunnforsendum Evrópusambandsins (Fjórfrelsið) og þar með EES samningsins. Fjórfrelsið er ein mikilvægasta stoð Evrópusambandins. Sú regla sér til þess að innan ESB er frjálst flæði fjármagns, fólks, vöru og þjónustu.  Gjaldeyrishöft koma í veg fyrir frjálst flæði fjármagns en þrengja einnig frjálst flæði vöru, þjónustu og fólks.

Ef við ætlum að halda áfram í EES og með krónu þá þyrftum við að semja við Evrópusambandið um varanlega undanþágu frá grunnstoð Evrópusambandsins og EES samningsins (Fjórfrelsinu). Það hlýtur að teljast augljóst að Evrópusambandið mun aldrei samþykkja að land í EES uppfylli ekki grunnstoð samningsins. Þar af leiðandi getur Ísland varla haldið áfram í EES með krónu. Hvort sem við viljum halda áfram eða ekki mun koma sá tímapunktur að við getum ekki verið áfram í EES. Við einfaldlega uppfyllum ekki grunnskilyrðin.

Spurning um framtíðina

Við Íslendingar höfum því tvo raunverulega valkosti. Að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru án gjaldeyrishafta og njóta áfram þeirra kosta sem við höfum notið innan EES samningsins. ESB sjálft hefur líka góða kosti. EES samningurin hefur gjörbreytt Íslandi og á jákvæðan hátt. Flestir eru sammála um ágæti EES samningsins og vilja ekki segja honum upp. Hinn valkosturinn er að ganga ekki í Evrópusambandið, halda áfram að nota krónu, vera áfram með gjaldeyrishöft og ganga úr EES.

Þeir sem vilja ekki í Evrópusambandið verða að gera það upp við sig hvort þeir séu tilbúnir til að missa EES samninginn og lifa í haftahagkerfi til frambúðar. Eru það í alvörunni hagsmunir einstaklinga og fyrirtækja í landinu að Íslandi verði áfram með gjaldeyrishöft, krónu og ekki í EES?